Magnús og Helgi í undanúrslit á Kýpur

Íslandsmeistararnir í tvíliðaleik karla þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason eru komnir í undanúrslit á alþjóðlega badmintonmótinu SOTOX Cyprus International. Mótið fer fram í borginni Nicosia á Kýpur, er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslistann.

Þeir Helgi og Magnús mættu í 8-liða úrslitum Dönunum Martin Kragh og Tore Vilhelmsen. Leikurinn var ótrúlega jafn og spennandi. Í fyrstu lotu voru liðin jöfn nær allan tíman og þurfti að spila uppí 28 áður en sigurvegarar fundust en lotuna sigruðu þeir Helgi og Magnús 28-26. Önnur lotan var ekki síður spennandi en hún endaði með 22-20 sigri íslensku strákanna.

Í undanúrslitum mæta strákarnir Joe Morgan og James Phillips frá Wales. Morgan og Phillips eru númer 87 á heimslistanum og fyrirfram taldir líklegastir til að sigra í mótinu á Kýpur. Það er því erfiður leikur framundan hjá Íslandsmeisturunum Helga og Magnúsi á morgun.

Helgi og Magnús Ingi tóku einnig þátt í einliðaleik á Cyprus International en biðu báðir lægri hlut fyrir dönskum andstæðingum í 16-liða úrslitum og eru þar með úr leik.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á SOTOX Cyprus International. Athugið að hægt er að fylgjast með leikjunum beint á netinu með því að smella á „live scoring" efst í hægra horni úrslitasíðunnar.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifað 10. oktober, 2008
ALS