Helgi og Magnús á faraldsfæti

Íslandsmeistararnir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason eru á faraldsfæti þessa dagana. Næstu tvær helgar munu þeir taka þátt mótum á Evrópumótaröðinni sem gefa stig á heimslistann. Dagana 9.-12.október taka þeir þátt í SOTX Cyprus International í Nicosia og 16.-19.október á HEAD Slovak Open í Presov.

Á Kýpur keppa þeir félagar bæði í einliða- og tvíliðaleik. Niðurröðun í mótið er hægt að skoða með því að smella hér.

Í einliðaleik mætir Helgi í fyrstu umferð heimamanninum Nikolas PANAGIOTOU. Sá hefur lítið spilað í alþjóðlegum mótum undanfarin ár og því ekki mikið vitað um getu hans. Magnús Ingi mætir einnig heimamanni í fyrstu umferð, Charis CHARALAMBOUS. Charalambous er einnig frekar óskrifað blað og óljóst við hverju er að búast hjá Magnúsi Inga. Tvíliðaleikurinn er á svipuðum nótum og einliðaleikurinn hjá strákunum þ.e. þeir mæta óþekktum heimamönnum.

Miðað við gengi íslenska landsliðsins gegn Kýpur í landsleikjum verður að teljast líklegt að þeir Magnús Ingi og Helgi komist áfram í aðra umferð mótsins bæði í einliða- og tvíliðaleik. Ísland hefur fimm sinnum mætt Kýpur í landsleik og sigrað örugglega í öll skiptin.

SOTOX Cyprus International hefst í Nicosia á fimmtudag. Þeir Helgi og Magnús Ingi hefja keppni strax fyrsta daginn. Hægt er að fylgjast með gangi mála á mótinu með því að smella hér.

Skrifað 7. oktober, 2008
ALS