EM - Broddi keppir um Evrópumeistaratitilinn

Evrópumót öldunga fer fram þessa dagana í bænum Punta Umbria á suður Spáni. Broddi Kristjánsson hefur heldur betur staðið sig vel á mótinu og mun keppa til úrslita um Evrópumeistaratitilinn í flokki 45 ára og eldri á morgun laugardag.

Undanúrslitin voru leikin í morgun en þá mætti Broddi Dananum Jesper Tolman. Fyrirfram var talið að Tolman væri næst sterkasti maður mótsins en annað kom á daginn. Í fyrstu lotunni voru þeir Broddi og Tolman mjög jafnir upp að stöðunni 13-13 en þá tók okkar maður forystuna og sigraði 21-16. Í annari lotu var Broddi með yfirhöndina allan tíman og sigraði mjög örugglega 21-9.

Broddi mætir öðrum Dana í úrslitunum á morgun, Martin Quist. Fyrir mótið var Quist talinn líklegastur til sigurs í +45 flokknum. Þeir sem þekkja Brodda vita að hann er mikill keppnismaður og mun án efa gera harða atlögu að Evrópumeistaratitilinum á morgun. Það væri ekki leiðinlegt fyrir þennan frábæra íþróttamann sem á 43 Íslandsmeistaratitla og 167 landsleiki að baki að bæta við Evrópumeistaratitli í safnið.

Ekki liggur fyrir klukkan hvað úrslitaleikurinn verður á morgun en það ætti að skýrast síðar í dag. Hægt er að fylgjast með gangi mála beint á netinu með því að smella á „live scoring" hnappinn efst í hægra horni úrslitasíðu mótsins.

Broddi Kristjánsson

Skrifađ 3. oktober, 2008
ALS