EM - Broddi í átta manna úrslitum

Sigurganga Brodda Kristjánsson á Evrópumóti öldunga sem fram fer á Spáni þessa dagana heldur áfram. Í morgun lék hann í 16-manna úrslitum gegn Pólverjanum Zbigniew Bartosz sem sá aldrei til sólar gegn Íslendingnum öfluga. Broddi sigraði örugglega 21-2 og 21-12 í aðeins 17 mínútna leik.

Hann er því kominn í 8-manna úrslit sem verða leikin á morgun fimmtudag. Andstæðingur Brodda á morgun er Svíinn Kjell Almgren en hann er raðaður númer tvö í mótið og því talin líklegur til að komast alla leið í úrslit. Almgren vann brons í einliða- og tvíliðaleik á síðasta EM öldunga og því ljóst að hann kann eitthvað fyrir sér í greininni. Það verður spennandi að sjá hvernig Brodda vegnar gegn honum á morgun.

Síðar í dag leikur Indriði Björnsson tvíliðaleik ásamt pólskum meðspilara en þeir mæta tékknesku pari. Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópumóti öldunga í badminton.

Skrifað 1. oktober, 2008
ALS