Helgi sigrađi ţrefalt á Opna TBR mótinu

Um helgina fór fram í TBR húsinu fyrsta mótið á SPRON mótaröð Badmintonsambands Íslands þennan veturinn, TBR OPIÐ. Óhætt er að segja að Íslandsmeistarinn Helgi Jóhannesson úr TBR hafi verið maður mótsins því hann sigraði þrefalt um helgina.

Í einliðaleik karla sigraði Helgi Magnús Inga Helgason, einnig úr TBR, í jöfnum þriggja lotu leik 23-21, 16-21 og 21-16. Í tvíliðaleik karla léku þeir Magnús Ingi saman og þar sigruðu þeir þá Kára Gunnarsson og Björn Heimirsson úr TBR 21-12 og 21-10 í úrslitum. Í tvenndarleik lék Elín Þóra Elíasdóttir með Helga en í úrslitaleiknum sigruðu þau Bjarka Stefánsson og Rakel Jóhannesdóttur 21-10 og 21-8.

Í kvennaflokki var hin íslensk/sænska Ida Larusson sem leikur með Badmintonfélagi Hafnarfjarðar hlutskörpust en hún sigraði bæði í einliða og tvíliðaleik. Í úrslitunum í einliðaleik mætti Ida Hönnu Maríu Guðbjartsdóttur, TBR, og sigraði í tveimur lotum 21-18 og 21-11. Í tvíliðaleik lék Ida með Snjólaugu Jóhannsdóttur úr TBR. Þær léku til úrslita gegn Skagastúlkunum Karitas Ósk Ólafsdóttur og Birgittu Rán Ásgeirsdóttur. Leikurinn var jafn og spennandi en endaði með naumum sigri Snjólaugar og Idu 21-18, 15-21 og 21-19.

Smellið hér til að skoða úrslit allra leikja á TBR OPIÐ 2008.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Skrifađ 29. september, 2008
ALS