Tinna vann sína leiki fyrir Greve

Landsliðskonan Tinna Helgadóttir æfir og keppir um þessar mundir í Danmörku. Hún stundar dönskunám við Kaupmannahafnarháskóla ásamt því að æfa af fullum krafti í alþjóðlegri badminton akademíu í Greve.

Um helgina var leikin fyrsta umferð í liðakeppninni í Danmörku en Tinna tekur þátt í henni með Greve Strands Badmintonklub. Tinna leikur með 2.liði félagsins sem er í 2.deildinni í Danmörku en 1.liðið er í úrvalsdeildinni. Tinna og félagar léku gegn öðru liði Værlöse og töpuðu 4-9. Þrátt fyrir tapið stóð Tinna sig vel og vann báða sína leiki. Hún lék 1.tvenndarleik með Dennis Schmidt Jensen sem vannst í þremur lotum 21-14, 15-21 og 21-17. Þá lék hún einnig 2.tvíliðaleik kvenna þar sem hún og Christina Aagaard Andersen sigruðu 21-14, 19-21 og 21-12. Smellið hér til að skoða nánari úrslit úr leik Greve og Værlöse síðastliðin laugardag.

Tinna Helgadóttir

Skrifað 23. september, 2008
ALS