Golfmótiđ gekk vel á Akranesi

Síðastliðin laugardag fór Golfmót badmintonmanna fram á Garðavelli á Akranesi. Alls léku 35 badmintonmenn og konur í ágætis veðri þrátt fyrir leiðinlega veðurspá. Flestir lentu aðeins í rigningu á tveimur holum og sluppu rétt við úrhellinn sem var seinni part dags.

Keppt var í þremur flokkum með punktakeppni. Í kvennaflokki sigraði Helga Björnsdóttir á 29 punktum en í öðru sæti var Hanna Lára Köhler með 27 punkta. Í flokki karla með 0-16 í forgjöf sigraði Kjartan Einarsson á 35 punktum, í öðru sæti varð Kristján Daníelsson með 33 punkta og í því þriðja Björn Halldór Björnsson með 32 punkta. Í flokki karla með 17-32 í forgjöf sigraði Ragnar Heiðar Harðarson á 32 punktum, í öðru sæti Sigurður Sverrir Gunnarsson með 30 punkta og í þriðja sæti Sigurður Már Harðarson með 30 punkta.

Keppt var um lengsta upphafshöggið á 4.braut og var það Hanna Lára Köhler sem var högglengst brautinni. Á þriðju braut var Kjartan Einarsson næstur holu eða 5,38 metra og á 18.braut var Jón S. Karlsson næstur holu eða 92 cm.

Vinningshafar mótsins voru leystir út með glæsilegum verðlaunum. Það er landsliðsþjálfarinn í badminton, Árni Þór Hallgrímsson, sem hefur haft veg og vanda að skipulagningu og stjórn þessa skemmtilega golfmóts frá upphafi. Á golf.is má sjá lista yfir alla þátttakendur í mótinu og árangur þeirra.

Skrifađ 15. september, 2008
ALS