Fjör í Badmintonskóla BSÍ

Badmintonskóli BSÍ, æfingabúðir fyrir 12-15 ára leikmenn, fór fram í TBR húsinu um helgina. Rétt rúmlega þrjátíu leikmenn víðsvegar af landinu tóku þátt í æfingabúðunum. Anna Lilja Sigurðardóttir fræðslustjóri BSÍ var aðal þjálfari æfingabúðanna en einnig komu leikmenn úr landsliðunum í heimsókn.

Á laugardeginum kom landsliðsmaðurinn Njörður Ludvigsson og aðstoðaði á æfingunum. Leikmenn gerðu tækniæfingar, fótaburðaræfingar og spiluðu fjölbreytt spilaform. Á sunnudeginum heimsóttu þau Katrín Atladóttir og Bjarki Stefánsson, sem voru í landsliði Íslands á Evrópumótinu í vor, krakkana. Katrín og Bjarki sýndu krökkunum tvö högg sem þau nota mikið í sínu spili og hjálpuðu þeim við að æfa þau. Þá fengu krakkarnir að reyna sig í spili gegn Bjarka og náðu fjórir leikmenn þeim frábæra árangri að vinna af honum stig.

Badmintonskóla BSÍ lauk síðan með því að öllum leikmönnum var skipt upp í fjögur lið sem kepptu sín á milli í liðakeppni. Það voru Heimsmeistararnir sem sigruðu keppnina en liðið var skipað þeim Ólafi Erni, BH, Þorkeli Inga, TBR, Margréti, TBR, Huldu Lilju, TBR, Hákoni Fannari, Hamri, Guðmundi Ágústi, Aftureldingu og Stefáni Snæ úr UMSB .

Þær Dagbjört Ýr úr Keflavík og Ebba úr Borgarnesi sáu um að gefa krökkunum að borða í hádeginu milli æfinganna. Boðið var uppá ristaðar samlokur, skyr, jógúrt og ávexti. Heimsklassa badminton var í sjónvarpinu á meðan leikmenn gæddu sér á hádegismatnum og voru margir spenntir að fylgjast með því.

Badmintonsambandið þakkar krökkunum og aðstoðarfólki fyrir skemmtilega helgi og vonar að allir hafi haft gagn og gaman að. Í myndasafninu hér á síðunni má finna nokkrar myndir frá helginni. Smellið hér til að skoða lista yfir alla þátttakendur.

Þátttakendur í Badmintonskóla BSÍ 2008.

Skrifađ 2. september, 2008
ALS