Ólympíuförunum fagnađ

Í dag, miðvikudaginn 27.ágúst, hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ríkisstjórnin og Reykjavíkurborg boðað til hátíðarhalda í miðborg Reykjavíkur. Tilefnið er heimkoma Ólympíufaranna, þar á meðal Rögnu Ingólfsdóttur badmintonkonu, frá Peking.

Ekið verður með keppendur á opnum bíl frá Hallgrímskirkju kl. 18 og endað á Arnarhóli þar sem keyrð verður hálftíma dagskrá á sviði. Án efa verður margt um manninn og stemningin mikil. Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu eru hvött til þess að mæta með sem flesta úr sínum röðum í sínum félagsbúningum, til að fagna keppendunum og þeim stórkostlega árangri sem landslið karla í handknattleik náði á leikunum. Mælst hefur verið til þess að menn leggi bílum sínum á stæðum í nokkurri fjarlægð frá miðbænum eða í bílastæðahúsum.

Ragna Ingólfsdóttir og Jónas Huang í Peking

Skrifađ 27. ágúst, 2008
ALS