Ferðasaga frá Osló

Dagana 8.-12.ágúst síðastliðin héldu badmintonsamböndin á Norðurlöndunum árlegar sameiginlegar æfingabúðir. Sú nýbreytni var á æfingabúðunum í ár að ráðinn var yfirþjálfari til að hafa umsjón með búðunum og kenna ungum þjálfurum um leið. Áður höfðu þjálfarar landanna hjálpast að og skipt á milli sín æfingunum sem varð til þess að það vantaði meiri rauðan þráð í gegnum æfingadagana. Fyrirkomulagið kom mjög vel út og fengu bæði leikmenn og þjálfarar mikið útúr viðburðinum.

Það var styrkur frá Badminton Europe sem gerði Norðurlöndunum kleift að ráða til sín þjálfara á heimsmælikvarða, Per Henrik Croona, í æfingabúðirnar í ár. Per Henrik hefur verið þjálfari hjá Badminton World Federation síðastliðin ár í þjálfunarsetri þeirra í Saarbrucken. Þar vann hann ásamt tveimur öðrum þjálfurum með hópi leikmanna sem var að berjast við að komast á Ólympíuleikana sem nú eru í gangi. Þjálfaratríóinu tókst að koma sextán leikmönnum á leikana sem er sannarlega frábær árangur.

Frá Íslandi tóku þátt í æfingabúðunum sem leikmenn þeir Kristinn Ingi Guðjónsson og Ólafur Örn Guðmundsson úr Badmintonfélagi Hafnarfjarðar. Leikmennirnir þurftu að greiða stærstan hluta kostnaðarins við æfingabúðirnar sjálfir en sáu ekki eftir því þar sem ferðin gaf þeim mjög mikið. Ungi þjálfarinn Vignir Sigurðsson úr TBR fylgdi strákunum til Osló og var þeim til halds og trausts ásamt því að vera á námskeiði hjá Per Henrik um leið.

Vignir skrifaði ferðasögu íslenska hópsins sem hægt er að skoða með því að smella hér.

Skrifað 19. ágúst, 2008
ALS