ÓL - Ragna hefur lokið keppni

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir hefur lokið þátttöku sinni á Ólympíuleikunum í Peking. Ragna lék í fyrstu umferð gegn japönsku stúlkunni Eriko Hiriose. Fyrirfram var sú japanska talin mun sigurstranglegri en Eriko var 13. í röðinni inn á leikana af 47 stúlkum en Ragna var 30. inn. Eriko hafði nokkra yfirburði í leiknum og var greynilegt að hún spilaði mikið uppá hnémeiðsli Rögnu. Hún pressaði hana mikið djúpt í langa bakhandarhorninu og átti eiturgóð dropp sem Ragna réð illa við.

Fyrstu lotuna sigraði sú japanska 21-6. Greynilegt var að Ragna var nokkuð stressuð í byrjun leiksins því högg sem hún er vanalega mjög örugg með gengu ekki sem skildi. Í seinni lotunni náði Ragna mun betra spili og minna var um mistök án mikillar pressu eins og í þeirri fyrri.

Þegar staðan var 19-7 í seinni lotunni varð Ragna því miður fyrir því óláni að meiða sig á vinstra hné en það er einmitt hnéð þar sem annað krossbandið er slitið. Þeir sem fylgdust með beinni útsendingu frá leiknum sáu greynilega að Ragna var sárþjáð og neyddist því til að gefa leikinn. Strax eftir að hún fór af velli var hún skoðuð af sjúkraþjálfaranum Gauta Grétarssyni og lækninum Ágústi Kárasyni sem eru í fagteymi ÍSÍ á leikunum. Við fyrstu athugun töldu þeir ólíklegt að hún hefði slitið hitt krossbandið. Ragna fer í myndatöku strax í dag til að varpa betra ljósi á stöðu mála.

Ragna var að vonum svekkt með að ná ekki að klára leikinn og þótti leiðinlegt að ljúka keppni á þennan hátt. Hún var þó mjög ánægð með að hafa komist alla leið í leikinn því meiðslin sem hún hlaut í dag hefðu eins getað átt sér stað á æfingu fyrir nokkrum dögum síðan og það hefði jú verið ennþá verra.

Ragna getur sannarlega verið stollt af því að komast alla leið á Ólympíuleikana því leiðin þangað var mjög löng og ströng. Margra ára þrotlausar æfingar og ferðalög um heiminn gerðu henni kleift að fá að keppa á eftirsóttasta íþróttamóti heims.  Ragna hefur gefið það út að hún ætli sér að komast á leikana í London 2012 og ljóst að þátttaka hennar í Kína nú gefur henni mikilvæga reynslu fyrir framtíðina.

Ragna Ingólfsdóttir

Ragna IngólfsdóttirRagna Ingólfsdóttir

Skrifað 9. ágúst, 2008
ALS