ÓL - Ragna vel stemmd í Peking

Hitinn í Peking er mikill þessa dagana. Ása Pálsdóttir, flokkstjóri badmintonhópsins, segir hitann vera þannig að þegar fólk er utandyra líður því eins og það sé inni í gróðurhúsi. Allir í hópnum eru þó mjög hressir og líður vel. Mikill spenningur er hjá öllum fyrir morgundeginum þegar Ólympíuleikarnir verða settir.

Ragna fékk að æfa í keppnishöllinni í dag en hún er að sögn Ásu stórglæsileg. Á æfingum undanfarna daga hefur Ragna verið að taka æfingaleiki við aðra keppendur. Í gær lék hún gegn írsku stúlkunni Chloe Magee og í dag gegn indversku stúlkunni Saina Nehwal. Ása segir að Ragna fari vaxandi frá æfingu til æfingu og er bjartsýn fyrir fyrsta leikinn.

Ragna hlakkar mikið til að fara á opnunarhátíð leikanna og telur að hún muni veita sér mikinn innblástur fyrir keppnina daginn eftir. Opnunarhátíðin verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu kl. 12 á hádegi á morgun föstudag. Bein útsending frá badmintonkeppninni hefst síðan kl. 1 eftir miðnætti sama dag.

Jónas Huang og Ragna Ingólfsdóttir á æfingu

Skrifað 7. ágúst, 2008
ALS