ÓL - Góđar móttökur í Peking

Íslenski Ólympíu-badmintonhópurinn er kominn í Ólympíuþorpið í Peking. Ferðin til Kína gekk mjög vel en var löng og ströng eins og við var að búast.

Íslenski badmintonhópurinn á Ólympíuleikunum í Peking. Ása Pálsdóttir, Ragna Ingólfsdóttir og Jónas Huang.

Strax þegar lent var á flugvellinum í Peking var ljóst að hópurinn var kominn á Ólympíuleikana. Á flugvellinum var allt fullt af starfsfólki merktu leikunum og allt til fyrirmyndar. Ólympíuþorpið er einnig mjög flott að sögn Ásu flokkstjóra hópsins og þar er líka vel mannað af starfsfólki um allt. Matartjaldið í þorpinu er risa stórt og tekur 5000 manns í sæti. Þar er hægt að fá mat frá öllum heimshornum.

Mikil áhersla er lögð á umhverfisvernd í Ólympíuþorpinu og er allur úrgangur flokkaður. Í komugjöf fékk hópurinn umhverfisvænan bol til að minna á þetta sem búinn var til úr fimm gosplastflöskum og smá bómull.

Ragna Ingólfsdóttir og lukkudýr Ólympíuleikanna í Peking

Ragna Ingólfsdóttir er mjög ánægð með aðstöðuna í Ólympíuþorpinu. Þar er frábær líkamsræktarstöð auk þess sem um allt eru leikjahallir þar sem hægt er að fara í ýmsa leiki og að iðka allar íþróttagreinar leikanna. Hún segir Kínverja vera ótrúlega vingjarnlega og taka á móti fólki með stærsta brosi á vör sem sést hefur. Ragna segist ekki finna fyrir neinni mengun í borginni. Hún er stolt og ánægð að vera loksins komin til Peking og finnst það vera mikill heiður.

Í dag mun hópurinn koma sér vel fyrir í þorpinu og vinna í því að venjast tímamismuninum. Á morgun fer Ragna síðan á sína fyrstu æfingu. Í myndasafninu hér á síðunni má finna myndir sem íslenski hópurinn hefur tekið í Peking. Nánar um Ólympíuleikana á heimasíðu ÍSÍ og á heimasíðu mótshaldara í Peking.

Skrifađ 1. ágúst, 2008
ALS