ÓL - Ragna mćtir japanskri í fyrstu umferđ

Dregið var í badmintonkeppni Ólympíuleikanna í morgun af Alþjóða Badmintonsambandinu (BWF). Fulltrúi Íslendinga á leikunum, Ragna Ingólfsdóttir, mætir Eriko Hirose frá Japan í fyrstu umferð keppninnar. Þær Ragna og Eriko hafa ekki leikið gegn hvorri annari í alþjóðlegri keppni áður. Alls taka 47 þátt í einliðaleik kvenna á leikunum og er Eriko talin 13. sterkasti leikmaðurinn en Ragna 32. Eriko hefur náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum undanfarið ár. Hún varð í 3.-4.sæti á Grand Pri mótinu India Grand Prix Gold 2008 en komst einnig í átta liða úrslit á Super Series mótunum í Malasíu og Hong Kong. Fyrirfram er því Eriko talin sigurstranglegri í viðureign þeirra Rögnu. Ragna Ingólfsdóttir

Setningarathöfn Ólympíuleikanna í Peking 2008 fer fram föstudaginn 8.ágúst kl. 8.08 um kvöldið. Laugardaginn 9.ágúst hefst badmintonkeppnin og mun Ragna keppa strax fyrsta daginn. Það kemur væntanlega í ljós síðar í dag klukkan hvað leikur Rögnu í fyrstu umferðinni er.

Á Ólympíuleikunum í badminton keppa 172 badmintonmenn, 86 konur og 86 karlar. Keppendur koma frá fimmtíu löndum sem er mikil fjölgun frá leikunum í Aþenu 2004 en þá tóku þrjátíu og þrjú lönd þátt. Alls taka 22 Evrópuþjóðir þátt í leikunum og 13 Asíuþjóðir. Þá eru átta Afríkulönd með keppendur á leikunum, fimm Ameríkulönd og tvö lönd í Eyjaálfu. Flestir leikmenn í badmintonkeppni Ólympíuleikanna koma frá Kína eða 19 talsins. Fjölmennasta Evrópuþjóðin eru Danir sem eiga 10 fulltrúa á leikunum.

Hægt er að skoða niðurröðun í allar keppnisgreinar badmintons á Ólympíuleikunum í Peking 2008 með því að smella hér.

Skrifađ 26. júlí, 2008
ALS