Danir bjartsýnir fyrir Ólympíuleika

Nú er aðeins rúmur mánuður þar til Ólympíuleikarnir verða settir í Peking í Kína. Íþróttamenn víðsvegar um heiminn standa í ströngu við undirbúning og aðstandendur eru án efa farnir að velta fyrir sér verðlaunamöguleikum.

Danir eru í það minnsta mikið að velta fyrir sér hverjir möguleikar þeirra verða í ágúst. Þeim þótti árið 2007 ekki sérstaklega gott afreksíþróttaár hjá sínu fólki og gerðu sér ekki vonir um mörg verðlaun á Ólympíuleikunum 2008. Fyrri hluti ársins í ár hefur hinsvegar verið góður og hafa þeir því hækkað markmið sín um verðlaun tvisvar sinnum. Stefnan er tekin á sjö verðlaun í Kína og eru sérstaklega miklar vonir bundnar við að danska badmintonfólkið standi sig vel. Danir keppa í 16 íþróttagreinum á leikunum og eru í augnablikinu öruggir með 83 íþróttamenn inná leikana, þar af 10 badmintonmenn.

Elstu Ólympíufarar Dana á leikunum í ár er tvíliðaleiksparið Jens Erikssen og Martin Lundgaard Hansen. Á vefnum www.ol.dk má finna ýmsar upplýsingar um þátttöku Dana á Ólympíuleikunum og þar er meðal annars viðtal við þá Jens og Martin. Í viðtalinu segja þeir félagar að reynslan eigi eftir að vera mikilvæg fyrir þá og að þeir ætli að ná sínu allra besta spili á Ólympíuleikunum. Leikarnir í ár verða þriðju leikar Martins og fjórðu leikarnir hans Jens. Smellið hér til að sjá viðtalið og stuttar klippur frá æfingu þeirra félaga.

Skrifađ 4. júlí, 2008
ALS