EGO Sport sigrađi liđ TBR

Evrópukeppni félagsliða í badminton fer fram þessa dagana í Moskvu í Rússlandi. Íslandsmeistarar TBR taka þátt í mótinu fyrir Íslands hönd. Síðasta umferð riðlakeppni mótsins var leikin í dag og er óhætt að segja að taugarnar hafi verið þandar. TBR liðið mætti EGO Sport Club frá Tyrklandi. Þrátt fyrir að ljóst væri að hvorugt liðið kæmist áfram í úrslitakeppni mótsins var hart barist og mikil spenna í viðureignum dagsins. Lítið vantaði uppá að TBR tækist að sigra Tyrkina en leikurinn endaði 5-2 EGO Sport í hag.

Í fyrsta einliðaleik karla mætti Helgi Jóhannesson Ali Kaya. Ansi miklar sviftingar voru í leiknum. Fyrstu lotuna vann Ali stórt 21-8 og aðra lotuna vann Helgi stórt 21-12. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit og þar var Ali sterkari og sigraði 21-10.

Næst lék Sunna Ösp Runólfsdóttir annan einliðaleik kvenna gegn Rintan Apriliana Sutanto sem er Indónesi en spilar með tyrkneska liðinu. Sunna Ösp komst aldrei inní spilið gegn öflugri Rintan sem sigraði örugglega 21-5 og 21-8.

Það var nokkur pressa á Tinnu Helgadóttur þegar hún hóf leik sinn gegn Siti Wachyuni Mauludinigtias því staðan í leik TBR og EGO var 0-2. Siti er Indónesi líkt og Rintan og mjög góður leikmaður. Tinna sigraði fyrstu lotu örugglega 21-12. Önnur lotan var jafnari og sigraði Siti 21-18. Í oddalotunni var Tinna jafn örugg og í þeirri fyrstu og sigraði glæsilega 21-14.

Atli Jóhannesson lék því næst annan einliðaleik karla gegn Hasan Huseyin Durakcan. Leikurinn var nokkuð jafn en Hasan var alltaf 2-3 stigum á undan Atla og sigraði naumlega 21-18 og 21-18. Staðan var þar með orðin 3-1 í leik EGO og TBR og ljóst að ekkert mátti bregða útaf hjá TBR liðinu.

Þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason voru undir mikilli pressu í tvíliðaleik karla gegn Nuri Balkan og Hangky Sienaya. Leikurinn var ótrúlega jafn og spennandi. Fyrstu lotuna unnu Helgi og Magnús 21-18. Í annari lotu var spennan mögnuð því hvorugt lið ætlaði að láta hana af hendi. Liðin skiptust á að hafa eins stigs forystu en tveggja stiga forskot þarf að hafa til að sigra. Það var ekki fyrr en komið var í 29-28 að íslensku strákarnir náðu að vinna tvö stig í röð og tryggja sér sigur í lotunni 30-28.

Hinar ungu og óreyndu Sunna Ösp Runólfsdóttir og Þorbjörg Kristinsdóttir voru í erfiðri aðstöðu gegn Hatice Nurgul Sen og Ezgi Epice í tvíliðaleik kvenna. Þær þurftu að sigra viðureignina til að halda TBR liðinu inni í leiknum. Sunna Ösp og Þorbjörg börðust vel og var jafnræði í báðum lotum til að byrja með. Tyrkirnir voru hinsvegar sterkari og sigruðu 21-17 og 21-13.

Þar með var ljóst að sigur EGO var í höfn og að tvenndarleikur systkinanna Magnúsar Inga og Tinnu gegn Ali Kaya og Siti Wachyuni myndi ekki skipta neinu. Systkinin náðu sér ekki almennilega á strik og töpuðu 21-18 og 21-16.

Lið TBR varð þar með í 4. og síðasta sæti í riðlinum sínum og endaði í 9.-12.sæti á Evrópukeppni félagsliða í ár. Fyrir mótið var talið nokkuð líklegt að svona færi enda stórt skarð hoggið í kvennalið TBR. Þrjár af sterkustu badmintonkonum félagsins gátu ekki gefið kost á sér í mótið og því mæddi mikið á ungu og óreyndu stúlkunum. Þær stóðu sig samt sem áður mjög vel og hafa öðlast ómælda reynslu fyrir mót framtíðarinnar.

Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á eftirfarandi heimasíðum:
Badminton Europe: http://www.eurobadminton.org/page.aspx?id=425
Europe Cup 2008 - Heimasíða mótsins: http://www.badmeurocup08.com/en/
Niðurröðun og tímasetningar keppninnar ásamt beinni útsendingu af stöðu leikja: http://www.tournamentsoftware.com/sport/draws.aspx?id=22017

Skrifađ 13. júní, 2008
ALS