Rússarnir geysisterkir

Íslandsmeistarar TBR steinlágu fyrir geysisterku rússnesku liði á Evrópukeppni félagsliða í badminton í morgun. Rússneska liðið Favorit-Ramenskoe eru gestgjafar Evrópukeppninnar í ár og hafa yfir að skipa mjög sterkum og reynslumiklum leikmönnum. TBR liðið tapaði öllum viðureignum sínum gegn Rússunum og fór því leikurinn 7-0. Þrátt fyrir tapið voru sumar viðureignir nokkuð jafnar og þá sérstaklega tvíliðaleikur karla og tvenndarleikurinn sem hefði með örlítilli heppni geta lent TBR megin.

Þau Helgi Jóhannesson og Tinna Helgadóttir léku tvenndarleikinn gegn Anton Nazarenko og Elena Chernyavskaya. Fyrir leikinn var talið að róðurinn yrði erfiður fyrir Tinnu og Helga því Elena og Anton eru mjög öflugt par. Þau sigruðu á móti í Slóvakíu síðastliðin vetur og voru í öðru sæti á móti í Tékklandi. Helgi og Tinna sýndu að þau eru gott tvenndarleiks par og gáfu Rússunum ekkert eftir. Liðin voru hnífjöfn allan leikinn og svekkjandi að sigurinn skildi falla Rússa megin að lokum 23-21 og 21-19.

Í fyrsta einliðaleik karla mætti Atli Jóhannesson Vladimir Ivanov. Vladimir hafði yfirburði í leiknum og sigraði örugglega 21-8 og 21-15. Bjarki Stefánsson spilaði annan einliðaleik karla þar sem hann mætti Alexander Schepalkin. Báðar lotur voru jafnar til að byrja með en svo stakk Alexander af og sigraði nokkuð örugglega 21-10 og 21-14.

Tinna Helgadóttir mætti Tatyana Bibik í fyrsta einliðaleik kvenna. Tatyana er mjög reynslumikill leikmaður sem hefur náð ágætis árangri undanfarin misseri. Hún er númer 124 á heimslistanum og hefur tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum. Báðar loturnar voru nokkuð jafnar til að byrja með en um miðbik þeirra beggja tók Tatyana forystuna og sigraði 21-12 og 21-16. Í hinum einliðaleik kvenna mætti Rakel Jóhannesdóttir Elena Schimko. Rakel byrjaði leikinn vel gegn þessari sterku stúlku og leiddi til að byrja með. Hin reynslumikla Elena náði þá yfirhöndinni og sigraði 21-16 og 21-11.

Andstæðingar þeirra Magnúsar Inga Helgasonar og Helga Jóhannessonar í tvíliðaleik karla Anton Nazerenko og Alexander Nikolaenko eru báðír mjög góðir tvíliðaleiks menn. Ásamt því að hafa náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum í tvíliðaleik hafa þeir mjög góð úrslit í tvenndarleik. Anton og Alexander höfðu yfirhöndina í tvíliðaleiknum nánast allan tíman þrátt fyrir að Helgi og Magnús Ingi væru aldrei langt undan. Rússneskur sigur 21-16 og 21-16 var því raunin.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Síðasti viðureignin í leik TBR og Favorit-Ramenskoe var tvíliðaleikur kvenna. Þar mættu þær Sunna Ösp Runólfsdóttir og Þorbjörg Kristinsdóttir Tatyana Bibik og Elena Schimko. Sunna Ösp og Þorbjörg mættu þar ofjörlum sínum sem sigruðu örugglega 21-6 og 21-8. Þar með var 7-0 sigur gestgjafanna frá Rússlandi í höfn.

Næsti leikur TBR liðsins og jafnframt síðasti leikur þeirra á mótinu er gegn tyrkneska liðinu EGO Sport Club. Leikurinn fer fram í fyrramálið kl. 5.00 að íslenskum tíma. Hvorki TBR-ingar né Tyrkirnir geta komist áfram í úrslitakeppni mótsins því bæði lið hafa tapað sínum leikjum og aðeins tvö lið komast upp úr riðlinum. Liðin tvö munu samt án efa berjast af öllum krafti gegn því að lenda í síðasta sæti í riðlinum.
Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á eftirfarandi heimasíðum:
Badminton Europe: http://www.eurobadminton.org/page.aspx?id=425
Europe Cup 2008 - Heimasíða mótsins: http://www.badmeurocup08.com/en/
Niðurröðun og tímasetningar keppninnar ásamt beinni útsendingu af stöðu leikja: http://www.tournamentsoftware.com/sport/draws.aspx?id=22017

Skrifađ 12. júní, 2008
ALS