TBR tapađi fyrir SHVSM Kharkov

Evrópukeppni félagsliða í badminton eða Europe Cup fer nú fram í Moskvu í Rússlandi. Íslandsmeistarar TBR sem taka þátt í mótinu fyrir Íslands hönd léku sinn fyrsta leik á mótinu í dag. Mótherjarnir voru úkraínsku meistararnir SHVSM Kharkov. Liði Kharkov var fyrir mótið spáð sigri í riðlinum og ekki taldar miklar líkur á að TBR liðið næði mörgum sigrum gegn þeim. Spádómurinn stóðst og úkraínska liðið sigraði TBR nokkuð örugglega 5-2. Óhætt er að segja að Helgi Jóhannesson hafi verið maður TBR liðsins en hann sigraði í báðum sínum viðureignum, tvíliðaleik karla og tvenndarleik.

Helgi Jóhannesson

Magnús Ingi Helgason lék fyrsta einliðaleik karla gegn hinum sterka Valeriy Atrashchenkov. Á Evrópumótinu sem fram fór í Danmörku í apríl komst Valeriy í þriðju umferð en hann er um þessar mundir númer 115 á heimslistanum. Magnús Ingi er númer 288 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins í einliðaleik karla. Valeriy hafði yfirhöndina í leiknum í dag allan tíman og sigraði Magnús Inga örugglega 21-7 og 21-12.

Annan einliðaleik karla lék Atli Jóhannesson gegn Vitaliy Konov. Vitaliy var í úkraínska landsliðinu á EM í apríl síðastliðnum og er númer 193 á heimslistanum í einliðaleik karla. Atli er númer 322 á heimslistanum. Fyrsta lotan í leik þeirra Atla og Vitaliy var jöfn til að byrja með en um miðja lotu stakk Vitaliy af og sigraði nokkuð örugglega 21-11. Í annari lotu var staðan jöfn nánast allan tíman. Atli leiddi þó að mestu seinni hluta lotunnar og náði að sigra naumlega 21-19. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram sigur. Í oddalotunni var allt í járnum líkt og í fyrri lotunum tveimur. Vitaliy var þó sterkari aðilinn og sigraði 21-16. Staðan í viðureign SHVSM Kharkov og TBR var því orðin 2-0.

Tinna Helgadóttir mætti því næst Elena Prus í fyrsta einliðaleik kvenna. Elena Prus er önnur sterkasta einliðaleikskona Úkraínu og númer 80 á heimslistanum í einiðaleik kvenna. Ljóst var að Tinna myndi eiga undir högg að sækja í leiknum enda er hún aðeins númer 190 á heimslistanum. Elena hafði yfirhöndina í leiknum frá upphafi og sigraði 21-10 og 21-14.

Tinna Helgadóttir

Í öðrum einliðaleik kvenna mætti Rakel Jóhannesdóttir Elizaveta Zharkaya. Rakel sem aðeins er 16 ára gömul er að taka þátt í sinni fyrstu Evrópukeppni félagsliða og því líklegt að taugarnar hafi skipað stórt hlutverk í leiknum hjá henni í dag. Hin úkraínska Elizaveta sigraði leikinn nokkuð örugglega 21-9 og 21-13. Þar með var ljóst að SHVSM Kharkov væri búið að sigra í leiknum gegn TBR þrátt fyrir að þrír leikir væru eftir. Aðrir leikir voru þó leiknir líka þar sem að allir leikir geta skipt máli þegar leikið er í riðlakeppni.

Í tvíliðaleik karla mættu þeir Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson Valeriy Atrashchenkov og Georgiy Natarov. Valeriy og Georgiy eru báðir sterkir tvíliðaleiksmenn sem voru í úkraínska landsliðinu á EM í apríl. Íslensku strákarnir komu sterkari til leiks og sigruðu fyrstu lotuna örugglega 21-12. Í annari lotu voru Valeriy og Georgiy með forystu nánast allan tíman og sigruðu 21-17. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram sigur. TBR-ingarnir voru öflugri í úrslitalotunni og sigruðu 21-15 í mjög jöfnum leik.

Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson

Þorbjörg Kristinsdóttir og Sunna Ösp Runólfsdóttir mættu í tvíliðaleik kvenna þeim Marina Kryganovskaya og Nataliya Chihichina. Sunna Ösp er í U17 landsliði Íslands í badminton en hún hefur aldrei áður tekið þátt í Evrópukeppni félagsliða. Þorbjörg hefur einu sinni áður tekið þátt í Evrópukeppni félagsliða en hún hefur aldrei leikið landsleik fyrir Íslands hönd. Fyrsta lotan í leiknum bar vott um stress hjá íslensku stúlkunum sem töpuðu örugglega 21-12. Í annari lotu komu þær Sunna og Þorbjörg mun sterkari til leiks og leiddu stóran hluta lotunnar. Undir lokin tóku þær úkraínsku þó aftur forystuna og sigruðu 21-17.

Þau Helgi Jóhannesson og Tinna Helgadóttir léku gegn Dmitriy Miznikov og Elena Prus í tvenndarleik sem jafnframt var síðasti leikur viðureignar TBR og SHVSM Kharkov. Leikurinn var mjög jafn og spennandi. Í fyrstu lotunni leiddu þau Helgi og Tinna nær allan tíman. Síðustu mínúturnar voru þó æsi spennandi og enduðu með naumum sigri Helga og Tinnu 23-21. Í annari lotu var úkraínska liðið sterkari aðilinn og sigraði nokkuð örugglega 21-10. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Oddalotan var hnífjöfn og endaði með glæsilegum sigri Helga og Tinnu 21-19.

Tinna Helgadóttir og Helgi Jóhannesson

Þrátt fyrir 2-5 tap TBR liðsins gegn SHVSM Kharkov í dag á liðið ennþá möguleika á að komast upp úr riðlakeppninni því tvö lið komast áfram úr hverjum riðli. Í fyrramálið kl. 5.00 að íslenskum tíma mætir TBR liðið gestgjöfum mótsins í ár Favorit-Ramenskoe. Leikmenn rússneska liðsins eru mjög reynslumiklir og hafa tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum undanfarin misseri. Allar líkur eru á því að það verði á brattan að sækja hjá TBR liðinu á morgun.

Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á eftirfarandi heimasíðum:
Badminton Europe: http://www.eurobadminton.org/page.aspx?id=425
Europe Cup 2008 - Heimasíða mótsins: http://www.badmeurocup08.com/en/
Niðurröðun og tímasetningar keppninnar ásamt beinni útsendingu af stöðu leikja: http://www.tournamentsoftware.com/sport/draws.aspx?id=22017

Skrifađ 11. júní, 2008
ALS