Danir bođa forföll á Evrópukeppni félagsliđa

Europe Cup eða Evrópukeppni félagsliða í badminton fer fram í Rússlandi 11.-15.júní næstkomandi. Keppnisrétt á mótinu hafa meistarar félagsliða allra Evrópulandanna. Íslandsmeistarar TBR munu keppa á mótinu fyrir Íslands hönd.

Dönsku meistararnir í Greve ætluðu að taka þátt í mótinu fyrir hönd Danmerkur en boðuðu forföll fyrir skömmu. Bestu leikmenn Greve munu taka þátt í Super Series mótinu Singapore Open sem fram fer á sama tíma og Europe Cup. Aðstandendur Greve höfðu ekki áhuga á að senda annað lið félagsins á mótið því þeir töldu það ekki eiga möguleika á að landa Evrópumeistaratitlinum. Forsvarsmenn félagsins voru mjög ósáttir við að Badminton Europe skildi halda Evrópukeppnina á sama tíma og þetta stóra mót sem er svo mikilvægt leikmönnum til undirbúnings fyrir Ólympíuleika. Silfurverðlaunahöfunum í dönsku liðakeppninni, BS Köbenhavn, var því boðið að senda lið á Europe Cup í stað Greve. Þar á bæ var tekin sama ákvörðun og í Greve þ.e. að afþakka boðið sökum þátttöku leikmanna í Singapore Open.

Þrátt fyrir að Danir verði ekki með á Europe Cup í ár hafa mörg önnur sterk lið boðað þátttöku sína. Af þeim sem þátt taka verða lið Rússlands og Úkraínu að teljast sigurstranglegust. Smellið hér til að skoða heimasíðu Europe Cup 2008.

Skrifađ 16. maí, 2008
ALS