Öll Evrópulöndin úr leik á HM

Heimsmeistarakeppni kvenna- og karlalandsliða fer fram þessa dagana í Jakarta í Indónesíu. Evrópsku liðin í mótinu hafa nú öll lokið keppni.

Í keppni kvennaliða (Uber Cup) stóð þýska liðið sig best og komst alla leið í undanúrslit þar sem það beið lægri hlut fyrir Indónesum. Hollenska liðið stóð sig einnig vel en það var nokkuð nálægt því að sigra núverandi titilhafa frá Kína. Úrslitaleikur Uber Cup fer fram á laugardag en þar mætast Kína og Indónesía. Kínverjar eru taldir líklegastir til sigurs.

Í keppni karlaliða (Thomas Cup) voru miklar vonir bundnar við það að Danir myndu halda uppi merkjum Evrópu og komast alla leið í úrslit. Þeir lentu hinsvegar í því að besti maður liðsins, Kenneth Jonassen, veiktist og gat ekki verið með í leiknum gegn Kóreu í áttaliða úrslitum. Skarð Kenneth var ekki fyllt svo auðveldlega og biðu Danir lægri hlut 2-3 fyrir Kóreu. Á morgun föstudag verða leiknir undanúrslitaleikir karlakeppninnar en þar mætast Kínverjar og Malasar annarsvegar og Indónesar og Kóreubúar hinsvegar. Úrslitin fara síðan fram á sunnudag.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Heimsmeistarakeppni landsliða í badminton.

Skrifađ 15. maí, 2008
ALS