Ánćgjulegt badmintonţing í dag

Ársþing Badmintonsambands Íslands fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í dag. Þingið fór í alla staði vel fram og var því stýrt vel og örugglega af þingforsetanum Herði Þorsteinssyni. Fulltrúar frá átta héraðssamböndum og Íþróttabandalögum sóttu þingið.

Ólympíublær var yfir þinginu enda badmintonkonan Ragna Ingólfsdóttir nýbúin að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking í sumar. Í þinghléi var Andri Stefánsson, sviðsstjóri afrekssviðs ÍSÍ og aðalfararstjóri Íslands á Ólympíuleikunum í sumar, með kynningu á leikunum í Peking. Kynning Andra var mjög áhugaverð og ljóst að það eru spennandi tímar framundan hjá Rögnu og öðrum Ólympíuförum Íslands. Að kynningu lokinni var Rögnu færður blómvöndur frá stjórn Badmintonsambandsins og henni óskað til hamingju með Ólympíusætið. Þá færði Badmintonfélag Hafnarfjarðar Rögnu einnig gjöf í tilefni tímamótanna og þakkaði henni fyrir að vera glæsileg fyrirmynd yngri kynslóðarinnar.

 

Ragna Ingólfsdóttir og Huanhuan eitt af lukkudýrum Ólympíuleikanna í Peking 2008. Á ársþingi BSÍ var Rögnu óskað til hamingju með að hafa tryggt sér þátttöku á Ólympíuleikunum og fékk hún blómvönd frá stjórn BSÍ af því tilefni.

 

Ragna Ingólfsdóttir og Huanhuan eitt af lukkudýrum Ólympíuleikanna í Peking í sumar

 

Fyrir þinginu lá tillaga stjórnar um nýjar félagaskiptareglur Badmintonsambandsins. Tillagan var samþykkt samhljóða. Aðrar tillögur lágu ekki fyrir þinginu.

Ingunn Gunnlaugsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa og var Þórhallur Einisson kosinn í stjórn í hennar stað. Þá voru þau Þorsteinn Páll Hængsson og Vigdís Ásgeirsdóttir endurkjörin í stjórn en aðrir stjórnarmeðlimir áttu ár eftir að stjórnarsetu og halda því sjálfkrafa áfram. Stjórn Badmintonsambands Íslands 2008-2009 er því skipuð eftirfarandi einstaklingum: Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir, formaður, Broddi Kristjánsson, Njörður Ludvigsson, Valdimar Þór Guðmundsson, Vigdís Ásgeirsdóttir, Þorsteinn Páll Hængsson og Þórhallur Einisson.

Þrátt fyrir mjög kostnaðarsamt og viðburðarríkt ár hjá Badmintonsambandinu var nánast enginn halli á rekstri ársins. Evrópukeppni B-þjóða var haldin hér á landi með veglegum hætti á reikningsárinu ásamt því að 40 ára afmæli sambandsins var fagnað. Fundarmönnum þótti kraftaverki líkast hvernig til hefði tekist með fjárhagsárið og færðu stjórn og framkvæmdarstjóra bestu þakkir fyrir vel unnin störf.

Sigríður Guðbjörg Bjarnadóttir, formaður BSÍ, veitti þeim leikmönnum sem hlutu flest stig á Stjörnumótaröð BSÍ í vetur verðlaun á þinginu. Í A-flokki kvenna sigraði Una Harðardóttir, ÍA, og í öðru sæti var Elín Þóra Elíasdóttir, TBR. Í A-flokki karla sigraði Kjartan Ágúst Valsson, BH, og í öðru sæti var Róbert Þór Henn, ÍA. Katrín Atladóttir, TBR, sigraði í Meistaraflokki kvenna en í öðru sæti var Tinna Helgadóttir, TBR. Í meistaraflokki karla sigraði Atli Jóhannesson, TBR, en í öðru sæti var Magnús Ingi Helgason, TBR.

Í þinglok óskaði Hörður Þorsteinsson, formaður BH, eftir því að stjórn Badmintonsambands Íslands fæli Badmintonfélagi Hafnarfjarðar framkvæmd Meistaramóts Íslands árið 2009. Óskin var borin fram í tilefni 50 ára afmæli félagsins á næsta ári. Það verður því eitt af fyrstu verkum stjórnar að fjalla um tillögu Hafnfirðinga.

Frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands sátu þingið Sigríður Jónsdóttir, stjórnarmaður, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri.

Skrifađ 3. maí, 2008
ALS