Ólympíudraumurinn orđinn ađ veruleika

Það er heimslisti Alþjóða Badmintonsambandsins í dag, fimmtudaginn 1.maí 2008, sem sker úr um það hvaða badmintonleikmenn munu öðlast keppnisrétt á Ólympíuleikunum í sumar. Afrekskonan Ragna Ingólfsdóttir er númer 56 á listanum í einliðaleik kvenna og hefur með þeim árangri tryggt sér þátttökurétt í þessari miklu og vinsælu íþróttahátíð. Badmintonsambandið er einstaklega stolt af þessum frábæra árangri Rögnu sem er glæsilegur fulltrúi badmintoníþróttarinnar á Íslandi.

 

Ragna Ingólfsdóttir

 

Íslenskt badmintonfólk á Ólympíuleikum

Fyrst var keppt í badminton á Ólympíuleikum árið 1992 í Barcelona en þá unnu þrír Íslendingar sér rétt til þátttöku; Árni Þór Hallgrímsson, Broddi Kristjánsson og Elsa Nielsen. Í Atlanta árið 1996 var Elsa Nielsen eini íslenski þátttakandinn í badminton á leikunum. Árið 2000 og árið 2004 náðu engir íslenskir badmintonmenn að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikum.

 

Árni Þór Hallgrímsson, Elsa Nielsen og Broddi Kristjánsson

 

Sara og Ragna nálægt Ólympíusæti 2004

Ragna hefur átt sér þann draum að öðlast keppnisrétt á Ólympíuleikum í mörg ár. Hún og Sara Jónsdóttir voru mjög nálægt því að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004 en þá voru þær mjög ofarlega á heimslistanum í tvíliðaleik og náðu einnig mjög góðum árangri í einliðaleik. Alveg frá árinu 2004 hefur Ragna stefnt að því að komast á Ólympíuleikana 2008. Hún hefur ferðast um víða veröld síðastliðin fjögur ár. Á þessum tíma hefur hún farið víða, einkum tvö síðastliðin ár.

Mikil ferðalög

Árangur badmintonfólks í alþjóðlegum mótum frá 1.maí 2007 til 30.apríl 2008 er það sem liggur bakvið heimslistastöðu leikmanna í dag, 1.maí. Yfirleitt er talað um að þetta tímabil sé hið svokallaða Ólympíuár. Á þessu árs tímabili hefur Ragna Ingólfsdóttir tekið þátt í tuttugu alþjóðlegum mótum í nítján borgum. Löndin þar sem Ragna hefur keppt í badmintonmótum á undanförnu ári eru nítján talsins og í þremur heimsálfum. Alls hefur Ragna verið erlendis í 100 daga á undanförnu ári eða samtals í rúma þrjá mánuði. Eftirfarandi er listi yfir þá staði sem Ragna hefur keppt á Ólympíuárinu.

EUROPEAN CHAMPIONSHIPS - Apríl 2008 Herning
CROATIAN INTERNATIONAL - Mars 2008 Zagreb
AUSTRIAN INTERNATIONAL - Febrúar 2008 Vienna
EUROPEAN MENS & WOMENS TEAM CHAMPIONSHIPS - Febrúar 2008 Almere
IRAN FAJR - Febrúar 2008 Tehran
SWEDISH INTERNATIONAL STOCKHOLM - Janúar 2008 Taby
HELLAS INTERNATIONAL - Desember 2007 Thessaloniki
VII ITALIAN INTERNATIONAL - Desember 2007 Roma
YONEX WELSH INTERNATIONAL - Desember 2007 Cardiff
ICELAND EXPRESS INTERNATIONAL - Nóvember 2007 Reykjavík
YONEX HUNGARIAN INTERNATIONAL CHAMPIONSHIPS - Nóvember 2007 Budapest
DUTCH OPEN GRAND PRIX - Október 2007 Almere
CYPRUS BADMINTON INTERNATIONAL - Október 2007 Nicosia
BITBURGER SAARLOXLUX OPEN - Október 2007 Luxemburg
TURKIYE INTERNATIONAL - September 2007 Istanbul
16th WORLD CHAMPIONSHIPS - Ágúst 2007 Kuala Lumpur
NORTH SHORE CITY INTERNATIONAL - Júlí 2007 Auckland
VICTORIAN INTERNATIONAL - Júlí 2007 Melbourne
SCG THAILAND OPEN GRAND PRIX GOLD - Júlí 2007 Bangkok
SUDIRMAN CUP MIXED TEAM CHAMPIONSHIP - Júní 2007 Glasgow

Árin áður en Ólympíuárið hófst voru ekki síður mikilvæg fyrir Rögnu. Með því að vera búin að vinna sig ofarlega á heimslistanum fyrir Ólympíuárið gerði Ragna sér kleift að sleppa að mestu við undankeppnir á tímabilinu og tryggja sér röðun í sumum mótum. Frá 1.maí 2004 eða þegar undirbúningur fyrir leikana í ár hófst til dagsins í dag hefur Ragna Ingólfsdóttir tekið þátt í 42 alþjóðlegum mótum sem fram hafa farið í 29 löndum og 32 borgum. Auk þessara landa og borga hefur Ragna að sjálfsögðu þurft að millilenda í mörgum fleiri. Á meðfylgjandi heimskorti eru löndin sem Ragna hefur heimsótt undanfarin fjögur ár lituð blá.

 

Heimskort Rögnu. Þau lönd sem Ragna Ingólfsdóttir hefur heimsótt 2004-2008 í undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana eru blálituð


Árangurinn góður

 

Það getur verið erfitt að ná fram sínu besta þegar mótaálag er eins mikið og hjá Rögnu undanfarið ár. Rögnu hefur þó tekist að ná mjög góðum árangri á mörgum mótum á undanförnu ári. Hún sigraði í tveimur mótum á tímabilinu; Iceland Express International og Hungarian International. Í Ástralíu og Grikklandi varð hún í 2.sæti á alþjóðlegum mótum og komst í undanúrslit í Austurríki og á Kýpur. Þá náði hún einnig góðum árangri í Evrópukeppni kvennalandsliða í Hollandi og Heimsmeistarakeppni landsliða í Skotlandi sem skiluðu henni mikilvægum stigum á heimslistanum.

Stuðningur úr ýmsum áttum

Eins og gefur að skilja fylgir því mikill kostnaður að ferðast eins mikið og Ragna hefur þurft að gera á undanförnum árum. Stuðningur margra góðra aðila hefur því verið nauðsynlegur fyrir Rögnu. Afrekssjóður ÍSÍ, Ólympíusamhjálpin, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur o.fl. hafa stutt dyggilega við bakið á badmintonkonunni. Þá hefur SPRON reynst Rögnu sérstaklega vel og stutt hana á veglegan hátt undanfarin misseri.
En það er ekki aðeins fjárhagslegur stuðningur sem er mikilvægur fyrir íþróttafólk eins og Rögnu því það er umgjörðin öll sem þarf að smella saman. Ása Pálsdóttir framkvæmdastjóri Badmintonsambandsins hefur séð um allt utanumhald ferða Rögnu. Slíkur undirbúningur er ótrúlega tímafrekur enda þarf að panta flug, gistingu, sjá til þess að hún sé sótt á flugvöllinn og margt fleira. Sviðsstjóri Afrekssviðs Íþrótta- og Ólympíusambandsins og fagteymi sjúkraþjálfara, lækna og sálfræðinga Íþróttasambandsins hafa einnig veitt ómetanlegan stuðning. Síðast en ekki síst er það þjálfari Rögnu, Jónas Huang, sem hefur fylgt henni um allan heim og hvatt hana áfram á badmintonvellinum.

 

Ragna Ingólfsdóttir

 

Ólympíuleikarnir

Badmintonkeppni Ólympíuleikanna fer fram 9.-17.ágúst. Úrslitaleikirnir verða spilaðir 15., 16. og 17.ágúst. Alls munu 172 leikmenn taka þátt í badmintonkeppninni. Ragna hefur unnið sér keppnisrétt í einliðaleik kvenna en einnig er keppt í einliðaleik karla, tvíliðaleik kvenna, tvíliðaleik karla og tvenndarleik. Aðeins 38 leikmenn fá þátttökurétt í einliðaleikjunum og 16 pör í tvíliða- og tvenndarleik.

Þann 10.maí næstkomandi sendir Alþjóða Badmintonsambandið boð um þátttöku til þeirra Ólympíusambanda sem eiga leikmenn sem hafa unnið sér keppnisrétt á leikunum. Badmintonsambandið mun óska eftir því að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðfesti þátttöku Rögnu á leikunum fyrir Íslands hönd.

 

Framundan hjá Rögnu eru strangar æfingar og undirbúningur fyrir þátttökuna á Ólympíuleikunum í Peking í Kína í ágúst. Ragna mun bæði taka þátt í mótum og æfingabúðum á vegum Evrópusambandsins í sumar til undirbúnings fyrir leikana.

Skrifađ 1. maí, 2008
ALS