Ragna komin í undanúrslit á Kýpur

Badmintonkonan Ragna Ingólfsdóttir er nú við keppni á alþjóðlegu badmintonmóti í Nicosia á Kýpur. Hún var rétt í þessu að sigra rússnesku stúlkuna Evgenia Antipova örugglega 21-7 og 21-17 í átta liða úrslitum í einliðaleik kvenna. Ragna er því komin í undanúrslit í einliðaleik en þar mun hún leika gegn dönsku stúlkunni Karinu Jörgensen. Karina hefur ekki tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum og er því aðeins númer 292 á heimslistanum. Það er þó vitað að þetta er sterkur leikmaður sem ekki má vanmeta. Þær Ragna og Karina mætast í undanúrslitunum um kl. 16 í dag.

Í tvíliðaleik er Ragna einnig komin í undanúrslit en þar spilar hún ásamt eistnesku stúlkunni Kati Tolmoff. Þær sigruðu Rússana Irina INOZEMTCEVA og Irina HLEBKO í átta liða úrslitum 21-6, 18-21 og 21-11. Í undanúrslitum síðar í dag leika þær gegn Katarzina KRASOWSKA frá Póllandi og Dometia IOANNOU frá Kýpur. Katarzina og Dometia eru óþekkt par líkt og Ragna og Kati og því ómögulegt að spá fyrir um úrslit leiksins.

Hægt er að fylgjast með framgöngu Rögnu á mótinu með því að smella hér. 

Skrifað 13. oktober, 2007
ALS