Keppni Íslendinga á Evrópumótinu lokið

Rétt í þessu var tvíliðaleikjum íslensku leikmannanna á Evrópumótinu í badminton að ljúka. Íslensku pörin þrjú biðu öll lægri hlut og hafa því lokið keppni á mótinu.

Þær Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir mættu í tvíliðaleik kvenna Hollendingunum Rachel Van Cutsen og Paulien Van Dooremalen. Hollendingarnir eru númer 44 á heimslistanum og því ljóst fyrirfram að það yrði við ramman reip að draga hjá stelpunum. Þær Rachel og Pauline unnu leikinn nokkuð örugglega 21-7 og 21-13.

Íslandsmeistararnir í tvíliðaleik karla þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason mættu ensku pari, Christopher Adcock og Dean George, í dag. Christopher og Dean voru í undanúrslitum á Opna Portúgalska í síðasta mánuði og eru númer 62 á heimslistanum. Í fyrstu lotunni voru Englendingarnir með forystu nær allann tímann og sigruðu 21-10. Í annari lotu voru það hinsvegar íslensku strákarnir sem leiddu allt fram til stöðunnar 17-17 en þá tóku Englendingarnir völdin og sigruðu 21-17.
Bjarki Stefánsson og Atli Jóhannesson mættu danska parinu Jens Eriksen og Martin Lundgaard Hansen í tvíliðaleiknum. Danirnir urðu Evrópumeistarar árið 2006 og eru nú taldir annað sterkasta tvíliðaleiksparið í Evrópu. Þeir eru númer 14 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Ungu piltarnir Atli og Bjarki létu Evrópumeistarana alls ekki fara illa með sig, náðu ágætis spili en töpuðu 21-9 og 21-10. Frábært fyri íslensku strákana að fá að keppa við þá allra bestu.

Allir íslensku keppendurnir eru nú úr leik á Evrópumótinu. Þeir geta þó verið sáttir með framistöðu sína. 13.sætið í liðakeppninni og góðir sigrar í einstaklingskeppninni er sannarlega góður árangur á svo sterku móti.

Dagskráin framundan á Evrópumótinu í badminton er eftirfarandi:
Föstudagurinn 18.apríl kl. 12-16 - Átta liða úrslit
Laugardagurinn 19.apríl kl. 10.00-15.00 - Undanúrslit
Sunnudagurinn 20.apríl kl. 10.00-15.00 - Úrslit

Hér er hægt að fylgjast með gangi mála á mótinu með því að smella hér.

Skrifað 17. apríl, 2008
ALS