Íslendingar úr í einliða- og tvenndarleik

Íslenska landsliðið hefur staðið sig vel á Evrópumótinu í badminton undanfarna daga og náð nokkrum óvæntum úrslitum. Í morgun var leikið í tvenndarleik og einliðaleik kvenna þar sem allir íslensku leikmennirnir féllu úr keppni. Eftir hádegi hefst keppni í tvíliðaleik þar sem þrjú íslensk pör verða í eldlínunni.

Þau Helgi Jóhannesson og Tinna Helgadóttir mættu í 16-liða úrslitum tvenndarleiks ensk/skosku pari, Robert Blair og Imogen Bankier, sem eru númer 19 á heimslistanum. Fyrsta lotan varjöfn til að byrja með en um miðja lotu stungu Robert og Imogen af og sigruðu 21-14. Í annari lotu náðu Tinna og Helgi aldrei forystu og urðu að játa sig sigruð 21-13. Helgi og Tinna hafa því lokið keppni á Evrópumótinu í tvenndarleik. Árangur þeirra er engu að síður mjög góður og ekki á hverjum degi sem íslenskt par kemst í 16-liða úrsit á svo sterku móti.

Í einliðaleik kvenna mætti Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir Sarah Walker frá Englandi. Ragna átti mjög erfiðan leik í gær gegn hinni ítölsku Agnese Allegrini sem sat mjög í henni í morgun. Árni Þór Hallgrímsson landsliðsþjálfari sagði að hún hefði verið dauðþreytt og ekki náð upp hraða í leiknum. Sarah sigraði í tveimur lotum 21-17 og 21-14.

Tinna Helgadóttir lék einnig í einliðaleik kvenna í morgun eftir nokkuð óvæntan sigur á sterkri spænskri stúlku í fyrstu umferðinni í gær. Andstæðingur hennar í dag var Jie Yao frá Hollandi sem er númer 19 á heimslistanum og á meðal bestu badmintonkvenna í Evrópu. Eins og við var að búast var Jie Yao sterkari aðilinn í leiknum og sigraði 21-9 og 21-17.

Síðar í dag hefja íslensku leikmennirnir keppni í tvíliðaleik en þar leika þær Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir í tvíliðaleik kvenna. Í tvíliðaleik karla leika fyrir Íslands hönd þeir Atli Jóhannesson og Bjarki Stefánsson annarsvegar og Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason hinsvegar.

Eftirfarandi eru leiktímar íslensku leikmannanna í dag:
kl. 13.05 Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir mæta Hollensku pari í tvíliðaleik
kl. 13.50 Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson mæta ensku pari í tvíliðaleik
kl. 15.20 Atli Jóhannesson og Bjarki Stefánsson mæta dönsku pari í tvíliðaleik
kl. 18.20 Katrín og Ragna spila 16-liða úrslit í tvíliðaleik ef þær vinna 32-liða
kl. 18.40 Magnús Ingi og Helgi spila 16-liða úrslit í tvíliðaleik ef þeir vinna 32-liða
kl. 19.25 Atli og Bjarki spila 16-liða úrslit í tvíliðaleik ef þeir vinna 32-liða

Hér er hægt að fylgjast með gangi mála á mótinu með því að smella hér.


Ragna Ingólfsdóttir
Skrifað 17. apríl, 2008
ALS