Evrópumótiđ - samantekt dagsins

Fyrsti dagur einstaklingskeppni Evrópumótsins í badminton hefur sannarlega verið frábær hjá íslenska landsliðinu. Góður árangur í liðakeppninni hefur án efa gefið leikmönnum mikið sjálfstraust og byr undir báða vængi. Keppt var í einliða- og tvenndarleik í dag og var árangurinn einstaklega góður. Árni Þór Hallgrímsson var sérstaklega ánægður með liðið þegar við náðum tali af honum nú undir kvöld og sagði daginn hafa verið draumi líkastur.

Helgi Jóhannesson og Tinna Helgadóttir sigruðu í fyrstu umferð par frá Eistlandi. Í annari umferð mættu þau sterku pari frá Póllandi sem áður hafði lagt öflugt þýskt par. Pólska parið Adam Cwalina og Malgorzata Kurdelska eru númer 60 á heimslistanum. Þau hafa náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum að undanförnu og unnu meðal annars mót í Wales í desember síðastliðnum. Sigur Helga og Tinnu er því sérstaklega glæsilegur. Fyrsta lotan var mjög jöfn og spennandi en lauk með naumum sigri Helga og Tinnu 25-23. Í annari lotu var íslenska parið nær alltaf með yfirhöndina og sigraði örugglega 21-9. Þau Tinna og Helgi eru því komin í 16 liða úrslit sem er sérstaklega vel af sér vikið eins sterku móti og EM. Í 16-liða úrslitum á morgun mæta Helgi og Tinna ensk/skosku pari, Robert Blair og Imogen Bankier. Búast má við mjög erfiðum leik því Robert og Imogen eru númer 19 á heimslistanum.

Árangur íslensku stúlknanna í einliðaleik kvenna verður líka að teljast mjög góður. Tinna Helgadóttir mætti sterkustu einliðaleiks konu Spánverja, Lucia Tavera, í fyrstu umferðinni. Lucia er númer 81 á heimslistanum og taldist því mun sigurstranglegri í viðureign þeirra enda Tinna númer 256 á sama lista. Tinna á greynilega heima ofar á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins því hún lék frábærlega á móti Lucia. Hún sigraði fyrstu lotuna örugglega 21-12. Í annari lotu kom sú spænska sterkari til leiks og náði að sigra 21-18. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit og þar var Tinna betri aðilinn og sigraði 21-12. Frábær árangur hjá Tinnu sem mætir sterkustu einliðaleikskonu Hollendinga, Jie Yao, í 32-liða úrslitum í fyrramálið. Hin kínverskt ættaða Jie Yao er númer 19 á heimslistanum og því mjög sterkur leikmaður.

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir fékk mjög erfiðan andstæðing strax í fyrstu umferð mótsins, Agnese Allegrini frá Ítalíu. Agnese er númer 41 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins en Ragna er númer 59 á sama lista. Agnese er mjög sterkur leikmaður en hún sigraði á alþjóðlegu móti í Íran fyrir skömmu. Þær Ragna og Agnese hafa einu sinni mæst í alþjóðlegu badmintonmóti áður en það var á Evrópumóti kvennalandsliða sem fram fór í febrúar síðastliðnum. Ragna sigraði í febrúar og aftur í dag þrátt fyrir að hún væri í hvorugt skiptið talin sigurstranglegri fyrirfram. Leikurinn í dag var mjög jafn og sérstaklega spennandi. Ragna þurfti að reyna að hægja niður spilið eins og hún gat því það var þreyta í henna eftir erfiða leiki í liðakeppninni undanfarna daga. Agnese sigraði fyrstu lotu 21-19 en Ragna tók næstu tvær 21-16 og 21-15. Frábær sigur hjá Rögnu og mikilvægur í baráttu hennar við að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í sumar. Andstæðingur Rögnu í 32-liða úrslitum er Sarah Walker frá Englandi en hún er númer 198 á heimslistanum.

Aðrir í íslenska liðinu töpuðu sínum leikjum í fyrstu umferð í dag. Árni var samt sem áður ánægður með spilamennsku þeirra því þau mætti mjög sterkum andstæðingum.

Smellið hér til að skoða dagskrá dagsins á morgun.

Tinna Helgadóttir og Helgi Jóhannesson    Ragna Ingólfsdóttir

Skrifađ 16. apríl, 2008
ALS