Frábćr sigur hjá Tinnu

Fyrstu umferð í einliðaleik kvenna á Evrópumótinu í badminton var að ljúka. Þær Ragna Ingólfsdóttir og Tinna Helgadóttir sigruðu báðar sína andstæðinga í fyrstu umferðinni og eru komnar áfram í 32-liða úrslit en Katrín Atladóttir tapaði sínum leik og hefur því lokið keppni.

Tinna Helgadóttir mætti sterkustu einliðaleiks konu Spánverja, Lucia Tavera, í fyrstu umferðinni. Lucia er númer 81 á heimslistanum og taldist því mun sigurstranglegri í viðureign þeirra enda Tinna númer 256 á sama lista. Tinna á greynilega heima ofar á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins því hún lék frábærlega á móti Lucia. Hún sigraði fyrstu lotuna örugglega 21-12. Í annari lotu kom sú spænska sterkari til leiks og náði að sigra 21-18. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit og þar var Tinna betri aðilinn og sigraði 21-12. Frábær árangur hjá Tinnu sem mætir að öllum líkindum sterkustu einliðaleikskonu Hollendinga, Jie Yao, í 32-liða úrslitum í fyrramálið. Hin kínverskt ættaða Jie Yao er númer 19 á heimslistanum og því mjög sterkur leikmaður.

Svissneska stúlkan Jeanine Cicognini var andstæðingur Katrínar í fyrstu umferð. Jeanine sem er ein þeirra nítján stúlkna frá Evrópu sem er í Ólympíusæti í dag er númer 48 á heimslistanum. Katrín barðist vel í leiknum en það dugði ekki til gegn hinni öflugu Jeanine sem sigraði 21-14 og 21-13.

Ragna sigraði með glæsilegum hætti ítölsku stúlkuna Agnese Allegrini í 64-manna úrslitum eins og áður hefur komið fram. Agnese sigraði fyrstu lotuna 21-19 en næstu tvær lotur sigraði Ragna 21-16 og 21-15. Árangurinn er glæsilegur hjá Rögnu því Agnese er númer 41 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins en Ragna er númer 59 á sama lista. Andstæðingur Rögnu í 32-liða úrslitum í fyrramálið er Sarah Walker frá Englandi en hún er númer 198 á heimslistanum.

Framundan í dag eru eftirfarandi leikir hjá íslensku keppendunum:
Kl. 14.50 Helgi og Tinna leika í annari umferð í tvenndarleik
Kl. 18.15 Magnús Ingi Helgason mætir Peter Mikkelsen frá Danmörku
Kl. 19.00 Atli Jóhannesson mætir Pablo Abian frá Spáni

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópumótinu í badminton.

 

Tinna Helgadóttir

 

Skrifađ 16. apríl, 2008
ALS