Ragna sigrađi í fyrstu umferđ á EM

Einstaklingskeppni Evrópumótsins í badminton hófst í morgun í Herning í Danmörku. Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir fékk mjög erfiðan andstæðing strax í fyrstu umferð mótsins, Agnese Allegrini frá Ítalíu.

Agnese er númer 41 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins en Ragna er númer 59 á sama lista. Agnese er mjög sterkur leikmaður en hún sigraði á alþjóðlegu móti í Íran fyrir skömmu. Þær Ragna og Agnese hafa einu sinni mæst í alþjóðlegu badmintonmóti áður en það var á Evrópumóti kvennalandsliða sem fram fór í febrúar síðastliðnum. Ragna sigraði í febrúar og aftur í dag þrátt fyrir að hún væri í hvorugt skiptið talin sigurstranglegri fyrirfram. Leikurinn var mjög jafn og spennandi. Agnese sigraði fyrstu lotu 21-19 en Ragna tók næstu tvær 21-16 og 21-15. Frábær sigur hjá Rögnu og mikilvægur í baráttu hennar við að vinna sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í sumar.

Andstæðingur Rögnu í 32-liða úrslitum er Sarah Walker frá Englandi en hún er númer 198 á heimslistanum. Ragna og Sarah mætast á morgun fimmtudag kl. 8.40.

Framundan í dag eru eftirfarandi leikir hjá íslensku keppendunum:

Kl. 10.45 Katrín Atladóttir mætir Jeanine Cicognini frá Sviss
Kl. 11.05 Tinna Helgadóttir mætir Lucia Tavera frá Spáni
Kl. 14.50 Helgi og Tinna leika í annari umferð í tvenndarleik
Kl. 18.15 Magnús Ingi Helgason mætir Peter Mikkelsen frá Danmörku
Kl. 19.00 Atli Jóhannesson mætir Pablo Abian frá Spáni

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópumótinu í badminton.

Skrifađ 16. apríl, 2008
ALS