Ragna í átta liða úrslitum á Kýpur

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er nú stödd í Nicosia á Kýpur þar sem hún tekur þátt í alþjóðlegu badmintonmóti. Mótið gefur stig á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins sem eru mikilvæg fyrir Rögnu til að tryggja sér þátttöku á Ólympíuleikunum í Peking á næsta ári.

Ragna er með fyrstu röðun á mótinu og því fyrirfram talin sterkust einliðaleikskvenna. Í fyrstu umferð sat Ragna hjá en mætti síðdegis í dag Egyptanum Alaa Yossef. Ragna vann Alaa nokkuð örugglega 21-5 og 21-14 og leikur því í átta liða úrslitum á morgun laugardag. Þar mun hún leika gegn rússnesku stúlkunni Evgenia Antipova. Evgenia þessi hefur ekki tekið þátt í mörgum mótum að undanförnu og er því númer 311 á heimslistanum. Erfitt er að segja til um getu leikmanna sem ekki hafa spilað mikið í mótum en ætla mætti að Ragna gæti sigrað hana.

Hægt er að fylgjast með gengi Rögnu á mótinu með því að smella hér.

Skrifað 12. oktober, 2007
ALS