Frábćr sigur gegn Eistlandi

Íslenska landsliðið keppti við það eistneska á Evrópumótinu í badminton í morgun. Ljóst var fyrir leikinn að eistneska liðið væri sterkara á pappírunum miðað við heimslistastöðu leikmanna en þó var sagan með íslenska liðinu því það hefur tvisvar leikið gegn Eistum og aldrei tapað.

Fyrsti leikur viðureignarinnar var tvenndarleikur þar sem Helgi Jóhannesson og Ragna Ingólfsdóttir léku gegn Ants Mangel og Helen Reino. Þau Helgi og Ragna voru klárlega betri aðilarnir í leiknum og sigruðu nokkuð örugglega 21-19 og 21-11. Staðan því 1-0 fyrir Ísland.

Þá var komið að Söru Jónsdóttur að leika einliðaleik gegn hinni sterku Kati Tolmoff. Kati, sem er númer 43 á heimslistanum, var svo sannarlega búin að eiga gott mót fram til þessa því hún sigraði í einliðaleik nokkuð óvænt bæði gegn Dönum og Skotum. Fyrsta lotan var mjög jöfn en Kati hafði forystuna mestan allan tíman. Undir lok lotunnar spilaði Sara frábærlega og tryggði nokkuð óvæntan sigur í lotunni 21-17. Í næstu tveimur lotum var Kati hinsvegar mun sterkari og sigraði örugglega 21-8 og 21-9. Staðan því 1-1 í einvígi Íslands og Eistlands.

Atli Jóhannesson lék því næst í einliðaleik karla gegn Raul Must. Atli spilaði ágætlega gegn hinum sterka Raul sem er númer 91 á heimslistanum. Sigur Eistans var samt sem áður aldrei í hættu og sigraði hann 21-8 og 21-9.

Sigur Eistanna í tvíliðaleik karla hefði getað tryggt þeim sigurinn í landsleiknum því staðan var orðin 2-1 Eistum í vil þegar hér var komið við sögu. Þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason voru hinsvegar ekki á þeim buxunum að gefa eftir og áttu frábæran tvíliðaleik gegn Meelis Maiste og Indrek Kuuts. Íslenskur sigur 21-17 og 21-12 tryggði áframhaldandi spennu í viðureigninni.

Tvíliðaleikur kvenna var hreinn úrslitaleikur í landsleiknum líkt og í gær gegn Tékkum. Þær Ragna Ingólfsdóttir og Tinna Helgadóttir léku þar fyrir hönd Íslands gegn þeim Kati Tolmoff og Helen Reino. Íslensku stelpurnar voru með forystu nánast allan tíman í fyrstu lotunni og sigruðu 21-14. Í annari lotu leiddu þær eistnesku hinsvegar spilið sem var mjög jafnt og náðu að sigra 22-20. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Oddalotan var æsispennandi en endaði með glæstum sigri þeirra Rögnu og Tinnu 21-18. Þar með var frábær 3-2 sigur Íslands á Eistum í höfn.

Næsti og jafnframt síðasti leikur íslenska liðsins á Evrópumótinu fer fram kl.16.00 í dag. Þá leikur liðið gegn Finnum um 13.sætið á mótinu og áframhaldandi veru á meðal A-þjóða. Eistland leikur hinsvegar gegn Írum um 15.sætið. Íslenska liðið mun leggja allt í sölurnar til að tryggja áframhaldandi veru Íslands á meðal A-þjóða Evrópu í badminton. Það er þó ljóst að róðurinn verður erfiður því Finnar eru mun sterkari á pappírunum. Ísland hefur fimmtán sinnum leikið landsleik gegn Finnum í badminton en aðeins fjórum sinnum sigrað. Síðasti sigur Íslands gegn Finnlandi var árið 1988. Ef heimslistastaða leikmanna er skoðuð standa Finnar einnig töluvert betur.

Hægt er að fylgjast með gangi mála beint á netinu með því að smella hér.

Heimasíða Evrópumótsins í badminton er: http://www.eurobadminton2008.com/

Niðurröðun liðakeppni Evrópumótsins má finna með því að smella hér.

Heimasíða Badmintonsambands Evrópu er: http://www.eurobadminton.org/

 

Helgi Jóhannesson, Atli Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason, Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sara Jónsdóttir, Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir

 

Skrifađ 14. apríl, 2008
ALS