Eistar sigurstranglegri gegn Íslandi

Íslenska landsliðið í badminton mætir Eistum á Evrópumótinu í badminton á morgun mánudag kl.8.00 að íslenskum tíma. Liðin tvö keppa ásamt Finnum og Írum um 13.-16.sætið á mótinu. Ef litið er á heimslistastöðu leikmanna beggja landa standa eistnesku leikmennirnir betur í þremur af greinunum fimm sem keppt er í á morgun.

Magnús Ingi Helgson er efstur á heimslistanum af íslensku strákunum í einliðaleik og er númer 353. Raul Must besti Eistinn er númer 91 á listanum.

Í einliðaleik kvenna er besta eistneska stúlkan Kati Tolmoff. Kati er númer 43 á heimslistanum og hefur staðið sig mjög vel á Evrópumótinu hingað til. Hún sigraði í sínum leik bæði gegn Dönum og Skotum. Ragna Ingólfsdóttir er númer 59 á heimslistanum en hún sigraði þó Kati síðast þegar þær stöllur mættust á alþjóðlegu móti.

Íslendingar eiga ekki neitt lið á heimslistanum í tvíliðaleik karla en besta eistneska parið er númer 260 á listanum.

Í tvíliðaleik kvenna og tvenndarleik stendur íslenska liðið hinsvegar betur en það eistneska. Þær Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir eru númer 160 á heimslistanum en þær Karoliine Hiom og Laura Vana eru númer 263. Systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn eru númer 191 á listanum í tvenndarleik en Karoliine Hoim og Ants Mengel eru um 50 sætum neðar eða númer 241.

Hægt er að fylgjast með gangi mála í leiknum beint á netinu með því að smella hér. Efst í hægra horni síðunnar er hægt að smella á „live scoring", þá opnast gluggi þar sem staðan í leikjunum sem eru í gangi hverju sinni uppfærist á 10 sekúndna fresti.

 

Helgi Jóhannesson, Atli Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason, Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sara Jónsdóttir, Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir

 

Skrifað 13. apríl, 2008
ALS