Frakkar sterkir

Evrópumótið í badminton fer nú fram í Herning í Danmörku. Íslenska landsliðið hefur í fyrsta sinn í mörg ár þátttökurétt í liðakeppni mótsins en þátttökurétturinn fékkst með glæsilegum sigri á Evrópukeppni B-þjóða í janúar 2007. Íslenska liðið tapaði í dag fyrir sterku liði Frakka 5-0.

Systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn léku tvenndarleikinn fyrir Íslands hönd. Þau biðu lægri hlut fyrir Svetoslav Stoyanov og Elodie Eymard 21-12 og 21-8. Franska parið er mjög sterkt en þau eru númer 30 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins .

Atli Jóhannesson mætti í einliðaleik karla sterkasta Frakkanum sem er númer 66 á heimslistanum. Atli átti ágætis leik en varð að játa sig sigraðan 21-10 og 21-13 fyrir þessum sterka leikmanni.

Í einliðaleik kvenna lék Sara Jónsdóttir gegn fyrrverandi æfingafélaga sínum og hinni kínverskt ættuðu Pi Hongyan. Pi og Sara æfðu saman í Alþjóðlegu Badmintonakademíunni í Kaupmannahöfn fyrir um fimm árum síðan. Pi er númer 6 á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins en enginn Evrópubúi er ofar en hún í einliðaleik kvenna. Eins og við var að búast hafði Pi nokkra yfirburði í leiknum gegn Söru og sigraði 21-10 og 21-7.

Tvíliðaleikur karla var mjög spennandi en þar léku þeir Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason gegn Svetoslav Stoyanov og Baptiste Careme. Leikurinn var mjög jafn og voru þeir Helgi og Magnús Ingi með forystu á tímabili. Leikinn unnu Frakkarnir þó 21-19 og 21-19.

Nýkrýndir Íslandsmeistarar, Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir, léku fyrir Íslands hönd í tvíliðaleik kvenna. Þær léku gegn Elodie Eymard og Weny Rahmawati sem eru númer 33 á heimslistanum. Frönsku stúlkurnar sigruðu nokkuð örugglega 21-12 og 21-12 og þar með var 5-0 sigur Frakklands í höfn.

Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Tékkum og hefst hann kl.16.00 að íslenskum tíma í dag. Nái Ísland að sigra Tékka tryggir liðið sér áframhaldandi veru á meðal A-þjóða Evrópu í badminton. Tapi Ísland gegn Tékkum er þó ekki öll von úti enn. Öll fjögur liðin sem enda í síðasta sæti í sínum riðlum bítast um að halda sé áfram á meðal A-þjóða, eitt lið heldur sér uppi en þrjú falla.

Hægt er að fylgjast með gangi mála á mótinu með því að smella hér. Smellið á "Live Scoring" efst í hægra horni síðunnar til að fylgjast með leikjunum beint.

Heimasíða Evrópumótsins í badminton er: http://www.eurobadminton2008.com/

Niðurröðun og tímasetningar liðakeppni Evrópumótsins má finna með því að smella hér.

Heimasíða Badmintonsambands Evrópu er: http://www.eurobadminton.org/

 

Helgi Jóhannesson, Atli Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason, Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sara Jónsdóttir, Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir

 

Skrifađ 13. apríl, 2008
ALS