Evrópumótiđ hefst á morgun

Á morgun, laugardaginn 12.apríl, hefst Evrópumótið í badminton. Mótið fer að þessu sinni fram í Herning í Danmörku. Dagana 12.-15.apríl fer liðakeppni mótsins fram og er þetta í fyrsta sinn í mörg ár sem íslenska landsliðið hefur þátttökurétt í mótinu. Þátttökurétturinn vannst með glæstum sigri á Evrópukeppni B-þjóða sem fram fór í Laugardalshöll í janúar 2007.

Fyrsti leikur íslenska liðsins er gegn Englendingum á laugardag. Englendingar eru raðaðir í riðli íslenska liðsins og er það engin tilviljun enda er lið þeirra skipað mjög sterkum leikmönnum. Í einliðaleik karla eru þeirra sterkustu menn Andrew Smith sem er númer 30 á heimslistanum og Rajiv Ouseph sem er númer 53. Í einliðaleik kvenna standa þeir enn betur en þar er þeirra sterkasta kona Tracey Hallam númer 16 á heimslistanum og Elizabeth Cann númer 30. Í tvíliðaleik karla koma bestu ensku pörin hvert á eftir öðru númer 44 og 45 á heimslistanum, Robert Adcock og Robin Middleton annarsvegar og Antony Clark og Robert Blair hinsvegar. Sterkasta par Englendinga í tvíliðaleik kvenna eru þær Gail Emms og Donna Kellogg. Þær stöllur eru númer 8 á heimslistanum og núverandi Evrópumeistarar í greininni. Hvergi eru Englendingar þó sterkari en í tvenndarleik. Þar eiga þeir pör númer sjö og níu á heimslistanum þau Nathan Robertson og Gail Emms annarsvegar og Anthony Clark og Donnu Kellogg hinsvegar.

Það er ljóst að íslenska liðið mun eiga undir högg að sækja í leiknum og ekki miklar líkur á að þeir nái að sigra einhverjar leiki. Hver landsleikur á Evrópumótinu samanstendur af fimm leikjum: einliðaleik kvenna, einliðaleik karla, tvíliðaleik kvenna, tvíliðaleik karla og tvenndarleik.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópumótinu í badminton. Með því að smella á "live scoring" efst í hægra horni síðunnar er hægt að fylgja leikjum mótsins beint á netinu.

 

Helgi Jóhannesson, Atli Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason, Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sara Jónsdóttir, Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir

 

Skrifađ 11. apríl, 2008
ALS