Úrslitaleikirnir hefjast kl. 14.45

Spennan magnast í TBR húsunum en framundan eru úrslitaleikir í Meistaramóti Íslands 2008. Úrslitaleikirnir hefjast klukkan 14.45 og verða í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Tveir leikmenn eiga möguleika á að sigra þrefalt í ár en það eru þau Magnús Ingi Helgason og Sara Jónsdóttir sem spila til úrslita í öllum greinum.

Byrjað verður á einliðaleik karla þar sem þeir Helgi Jóhannesson ogMagnús Ingi Helgason mætast. Magnús er núverandi Íslandsmeistari en hann sigraði í fyrsta sinn í fyrra. Helgi hefur tvisvar hampað Íslandsmeistaratitlinum árið 2005 og 2006. Búast má við spennandi leik hjá þeim Helga og Magnúsi sem hafa háð harða baráttu í mótum vetrarins. Magnús hefur sigrað oftar í vetur en Helgi vann síðasta mót.

Í einliðaleik kvenna mætast þær Sara Jónsdóttir og Ragna Ingólfsdóttir. Sigri Ragna í dag er það hennar sjötti Íslandsmeistaratitill í röð í einliðaleik kvenna. Sara hefur einu sinni hampað titlinum eftirsótta en það var árið 2002. Sara hefur verið mjög sigursæl á mótum hér heima í vetur en Ragna hefur ekki tekið þátt í innlendum mótum sökum anna á erlendum vettvangi.

Broddi Kristjánsson á möguleika á að hampa sínum 44. Íslandsmeistaratitli þegar hann og Þorsteinn Páll Hængsson mæta Magnúsi Inga Helgasyni og Helga Jóhannessyni í úrslitum í tvíliðaleik karla í dag. Þeir Helgi og Magnús Ingi eru núverandi Íslandsmeistarar í tvíliðaleik karla og ætla án efa ekki að tapa titlinum til "gömlu mannanna".

Þær Sara Jónsdóttir og Tinna Helgadóttir mæta Rögnu Ingólfsdóttur og Katrínu Atladóttur í úrslitum tvíliðaleiks kvenna. Sigri Ragna og Katrín í dag er þetta þeirra þriðji Íslandsmeistaratitill í röð í tvíliðaleiknum. Tinna og Sara munu án efa veita þeim harða keppni en síðast þegar þessi tvö pör mættust var allt í járnum. Á Iceland Express mótinu í nóvember síðastliðnum sigruðu þær Ragna og Katrín í oddalotu 21-17.

Í úrslitum í tvenndarleik mæta systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn þeim Söru Jónsdóttur og Tryggva Nielsen. Tinna og Magnús hafa einu sinni orðið Íslandsmeistarar í tvenndarleik en það var árið 2005. Tryggvi hefur einnig hampað Íslandsmeistaratitlinum í tvenndarleik einu sinni en það var árið 2002 þegar hann spilaði með systur sinni Elsu Nielsen. Sara hefur hinsvegar ekki sigrað í tvenndarleik áður.

Úrslitaleikjum í A-, B-, Heiðurs- og Æðstaflokki er að ljúka. Hægt er að skoða úrslit leikjanna hér: http://tournamentsoftware.com/sport/matches.aspx?id=20381

Skrifađ 6. apríl, 2008
ALS