Hverjir verða Íslandsmeistarar?

Meistaramót Íslands í badminton fer fram um næstu helgi. Væntanlega eru leikmenn komnir með fiðring í magann og farnir að hugsa ansi mikið til mótsins sem framundan er. Íslandsmeistararnir frá því í fyrra ætla án efa að verja titla sína og andstæðingar þeirra munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að það verði ekki.

Magnús Ingi Helgason varð tvöfaldur Íslandsmeistari í fyrra en hann sigraði bæði í einliðaleik karla og tvíliðaleik karla ásamt Helga Jóhannessyni. Helgi varð einnig tvölfaldur meistari en hann sigraði í tvenndarleik auk tvíliðaleiksins með Magnúsi Inga. Magnús Ingi hefur unnið flest mót vetrarins í einliðaleik en Helgi kemur fast á hæla hans með sigur í síðasta móti. En það eru ekki aðeins Magnús og Helgi sem eru líklegir til að taka titilinn í einliðaleik karla því Tryggvi Nielsen er einnig á meðal keppenda. Hann býr og æfir í Svíþjóð og hefur því ekki tekið þátt í mótum hér heima í vetur. Tryggvi hefur þrisvar hampað titlinum eftirsótta og mun svo sannarlega gera harða atlögu að honum í ár.

Ragna Ingólfsdóttir varð þrefaldur Íslandsmeistari árið 2007. Hún er ein sextán leikmanna sem hafa náð þeim árangri frá upphafi Íslandsmóta í badminton. Ragna verður svo sannarlega að teljast sigurstranglegust í einliðaleik kvenna á Meistaramótinu í ár. Ljóst er að aðrir leikmenn munu þó veita henni harða keppni. Sara Jónsdóttir hefur verið á mikilli sigurbraut í mótum vetrarins og sigrað á öllum fjórum mótunum sem hún hefur tekið þátt í. Þær Tinna Helgadóttir og Katrín Atladóttir hafa þó verið að veita henni mjög harða keppni og verður spennandi að sjá hvernig fer um helgina. Ragna hefur ekki tekið þátt í mörgum mótum hér heima í vetur og því erfitt að meta stöðu hennar gagnvart öðrum leikmönnum um þessar mundir.

Í tvíliðaleik kvenna eiga þær Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir möguleika á að vinna bikarana til eignar því sigri þær í ár hafa þær unnið þrjú ár í röð. Sara Jónsdóttir og Tinna Helgadóttir verða að teljast þeirra erfiðustu andstæðingar í mótinu um helgina. Helgi Jóhannesson og Magnús Ingi Helgason eru ríkjandi meistarar í tvíliðaleik karla en Helgi hefur unnið tvíliðaleikinn síðastliðin þrjú ár. Ungu piltarnir Atli Jóhannesson og Bjarki Stefánsson ásamt gömlu kempunum Brodda Kristjánssyni og Þorsteini Páli Hængssyni munu án efa reyna að stöðva sigurgöngu Magnúsar og Helga.

Tvenndarleikurinn er oft óútreiknanlegasta grein Meistaramótanna. Þar spila oft saman leikmenn sem ekki endilega hafa sést svo mikið saman á mótum vetrarins. Systkinin Magnús Ingi og Tinna Helgabörn urðu Íslandsmeistarar árið 2005 og þykja nokkuð sigurstrangleg í ár. Helgi Jóhannesson og Ragna Ingólfsdóttir eru ríkjandi meistarar og einnig líkleg til sigurs. Þá eru þau Tryggvi Nielsen og Sara Jónsdóttir ekki ólíkleg til afreka.

Niðurröðun Meistaramóts Íslands 2008 verður birt á morgun þriðjudaginn 1.apríl.

Skrifað 31. mars, 2008
ALS