Evrˇpumˇti­ nŠsta verkefni landsli­sins

Næsta verkefni landsliðsins í badminton fer fram í Danmörku í apríl. Þann 12.-20.apríl næstkomandi verður keppt um Evrópumeistaratitla liða og einstaklinga í Herning á Jótlandi. Ísland hefur ekki haft þátttökurétt í liðakeppninni í mörg ár. Með glæstum sigri á Evrópukeppni B-þjóða í Laugardalshöll í janúar 2007 tryggði íslenska landsliðið sér hinsvegar rétt til þátttöku í Evrópukeppni A-þjóða sem nú er framundan. Leikmenn og aðstandendur íslenska landsliðsins hafa beðið í ofvæni eftir því komast í þessa keppni og nú eru aðeins um tvær vikur til stefnu.

Einstaklingskeppnin fer fram 16.-20.apríl. Ísland hefur rétt til að senda tvo þátttakendur/pör í hverja grein þ.e. einliða- og tvíliðaleik karla og kvenna og tvenndarleik. B-þjóðirnar hafa aðeins rétt til að senda einn þátttakanda/par í hverja grein. Landsliðsþjálfarinn Árni Þór Hallgrímsson mun tilkynna um þá leikmenn sem taka þátt fyrir Íslands hönd innan skamms.

Liðakeppnin fer fram 12.-15.apríl en þar munu sextán þjóðir bítast um Evrópumeistaratitilinn í badminton. Keppt er í blönduðum liðum þ.e. karlar og konur saman en ekki í sitthvoru lagi eins og á Evrópumótinu sem fram fór í febrúar. Hver landsleikur samanstendur af fimm leikjum: einliðaleik karla, einliðaleik kvenna, tvíliðaleik karla, tvíliðaleik kvenna og tvenndarleik. Þjóðunum sextán hefur verið skipt í fjóra riðla þar sem allir leika gegn öllum. Efsta liðið í hverjum riðli keppir í útsláttarkeppni um 1.-4.sætið, liðin í öðru sæti keppa um 5.-8.sætið, liðin í þriðja sæti um 9.-12.sætið og neðstu liðin í riðlunum fjórum keppa svo um 13.-16.sætið.

Íslenska liðið lenti í riðli með Englandi, Frakklandi og Tékklandi þar sem Englendingar eru með röðun og taldir líklegastir til að sigra. Markmið íslenska liðsins er að lenda í 13.sæti eða ofar á mótinu og halda þar með sæti sínu á meðal A-þjóða Evrópu. Ljóst er að það verður erfitt verkefni fyrir íslenska liðið að ná þessu markmiði en alls ekki óyfirstíganlegt.

Andstæðingarnir í riðli íslenska liðsins

Englendingar hafa eins og áður hefur komið fram röðun í riðli íslenska liðsins. Það er engin tilviljun að England skuli fá röðunina enda hafa þeir yfir að skipa mjög sterkum leikmönnum. Í einliðaleik karla eru þeirra sterkustu menn Andrew Smith sem er númer 30 á heimslistanum og Rajiv Ouseph sem er númer 53. Í einliðaleik kvenna standa þeir enn betur en þar er þeirra sterkasta kona Tracey Hallam númer 16 á heimslistanum og Elizabeth Cann númer 30. Í tvíliðaleik karla koma bestu ensku pörin hvert á eftir öðru númer 44 og 45 á heimslistanum, Robert Adcock og Robin Middleton annarsvegar og Antony Clark og Robert Blair hinsvegar. Sterkasta par Englendinga í tvíliðaleik kvenna eru þær Gail Emms og Donna Kellogg. Þær stöllur eru númer 8 á heimslistanum og núverandi Evrópumeistarar í greininni. Hvergi eru Englendingar þó sterkari en í tvenndarleik. Þar eiga þeir pör númer sjö og níu á heimslistanum þau Nathan Robertson og Gail Emms annarsvegar og Anthony Clark og Donnu Kellogg hinsvegar.

Franska liðið verður að teljast næsta sterkasta liðið í íslenska riðlinum. Þeirra helsti styrkleiki liggur kvenna megin en þeirra sterkasta einliðaleikskona, Pi Hongyan, er númer sex á heimslistanum og efst allra evrópskra kvenna. Frakkarnir standa ekki eins vel í einliðaleik karla en eiga þó yfir að skipa mjög sterkum leikmönnum, Simon Maunoury númer 63 á heimslistanum og Erwin Kehlhoffner númer 64. Í tvíliðaleik kvenna eiga þeir par númer 31 á heimslistanum, Elodie Eymard og Weny Rahmawati, og númer 49 í tvíliðaleik karla, Svetoslav Stoyanov og Mihail Popov. Besta franska parið í tvenndarleik Svetoslav Stoyanov og Elodie Eymard eru númer 34 á heimslistanum. Það er ljóst að franska liðið er á pappírunum mun sterkara en það íslenska. Helstu möguleikar íslenska liðsins á að stela sigrum ætti þó að vera í tvíliðaleik kvenna eða tvenndarleik.

Áhugaverðasti leikur Íslands í riðlinum verður án efa gegn Tékklandi. Þar ættu að vera nokkrar vonir um jafna leiki og jafnvel einhverjir möguleikar á sigrum á góðum degi. Í einliðaleik karla eru bestu tékknesku leikmennirnir Petr Koukal númer 41 á heimslistanum og Jan Fröhlich númer 49. Kristina Ludikova er sterkasta einliðaleiks kona Tékka en hún er númer 67 á heimslistanum eða 13 sætum neðar en Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir. Tvíliða- og tvenndarleikspör Tékka hafa ekki tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum undanfarin misseri og því gefur heimslista staða þeirra ekki mjög góða mynd af getu þeirra. Öll eru pörin þó ofar en íslensku pörin sem heldur hafa ekki verið mikið á faraldsfæti og verða því að teljast sterkari á pappírunum.

Það verður því að teljast líklegt að íslenska og tékkneska liðið muni heyja harða baráttu í C-riðli Evrópumótsins um þriðja sætið í riðlinum og þar með öruggt sæti áfram á meðal A-þjóða Evrópu. Eitthvað mikið þarf að gerast til að enska liðið tryggi sér ekki öruggan sigur í riðlinum og komist áfram í útsláttarkeppnina um Evrópumeistaratitilinn sjálfan.

Heimasíða Evrópumótsins í badminton er: http://www.eurobadminton2008.com/

Niðurröðun liðakeppni Evrópumótsins má finna hér: http://tournamentsoftware.com/sport/event.aspx?id=18411&event=1

Heimasíða Badmintonsambands Evrópu er: http://www.eurobadminton.org/

 

Helgi Jóhannesson, Atli Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason, Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sara Jónsdóttir, Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir

 

Skrifa­ 20. mars, 2008
ALS