Ragna í átta liða úrslit

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er komin í átta liða úrslit á alþjóðlega badmintonmótinu Austrian International Championship sem fram fer í Vínarborg nú um helgina.

Hún sigraði í annari umferð mótsins rússnesku stúlkuna Tatjana Bibik. Þrátt fyrir að Tatjana væri rúmum 50 sætum fyrir neðan Rögnu á heimslistanum var vitað að hér væri um mjög sterkan leikmann að ræða. Tatjana varð meðal annars í öðru sæti á Opna Pólska og komst í undanúrslit á sterku móti í Rússlandi í fyrra sem sýnir að hér er um engan aukvisa að ræða. Leikurinn var nokkuð jafn en Ragna hafði þó yfirhöndina mest allan tíman og sigraði 21-17 og 21-17.

Í átta liða úrslitum sem leikin verða á morgun mætir Ragna Emelie Lennartsson frá Svíþjóð sem er númer 109 á heimslistanum. Emelie er önnur sterkasta einliðaleikskona Svíþjóðar. Á Iceland Express mótinu sem haldið var hér á landinu í nóvember beið Emelie lægri hlut fyrir Tinnu Helgadóttur. Ekki er vitað til þess að Ragna og Emelie hafi mæst áður á alþjóðlegu móti.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Austrian International.

 

Ragna Ingólfsdóttir

 

Skrifað 21. febrúar, 2008
ALS