Ragna talin sigurstranglegust á Kýpur

Fimmtudaginn 11.október næstkomandi hefst alþjóðlega badmintonmótið Cyprus Badminton International í höfuðborginni Nicosia á Kýpur. Mótið gefur stig á heimslista Alþjóða Badmintonsambandsins. Ragna Ingólfsdóttir er meðal keppenda á mótinu en hún mun taka þátt í einliðaleik kvenna og tvíliðaleik kvenna ásamt eistnesku stúlkunni Kati Tolmoff.

Ragna fær fyrstu röðun í einliðaleik kvenna og er því talin sigurstranglegust á mótinu. Hún situr hjá í fyrstu umferð en mun síðan mæta annað hvort heimamanninum Afrodite Christodoulou eða egyptanum Alaa Youssef. Bæði Afrodite og Alla hafa tekið þátt í fáum mótum sem gefa stig á heimslista og því erfitt að segja til um getu þeirra. Ragna mun etja kappi við aðra hvora föstudaginn 12.október.

Í tvíliðaleik kvenna sitja þær Ragna og Kati hjá í fyrstu umferð og mæta annað hvort kýpversku eða rússnesku pari í annarri umferð. Ragna og Kati hafa ferðast mikið saman um heiminn en aldrei tekið þátt í tvíliðaleik saman áður. Þær eru báðar í úrvalshópi Evrópusambandsins og æfa því reglulega saman í æfingabúðum á þeirra vegum.

Nánari upplýsingar um Cyprus Badminton International má finna á heimsíðunni http://www.cyprusbadminton.com/.

Skrifađ 9. oktober, 2007
ALS