Tvöfalldur danskur sigur á Evrópumótinu

Evrópukeppni karla- og kvennalandsliða fór fram í Almere í Hollandi í síðustu viku. Danir urðu Evrópumeistarar bæði í keppni karlalandsliða og keppni kvennalandsliða. Sigur þeirra í karlakeppninni var ekki óvæntur enda voru þeir með fyrstu röðun og spáð titilinum allan tíman. Í kvennakeppninni var sigurinn hinsvegar nokkuð óvæntur en Þjóðverjar voru fyrirfram taldir mun líklegri sigurvegarar mótsins. Veikindi hjá þýska liðinu urðu hinsvegar til þess að þeirra sterkasta kona gat ekki leikið undanúrslitaleikinn gegn Dönum og líklegt að það hafi haft nokkur áhrif á niðurstöðuna.

Ekki var aðeins leikið um Evrópumeistaratitla á mótinu í Hollandi því einnig var barist um þátttökurétt á Heimsmeistarakeppni landsliða (Thomas og Uber Cup) sem fram fer í Jakarta í Indónesíu í maí. Efstu þrjár þjóðirnar á Evrópumótinu tryggðu sér þátttökurétt þar. Hjá körlunum eru það Danir, Englendingar og Þjóðverjar sem fara til Indónesíu en hjá konunum Danir, Hollendingar og Þjóðverjar.

Íslensku landsliðin stóðu sig vel á Evrópumótinu í Hollandi en kvennalandsliðið endaði í 8.-14.sæti og karlalandsliðið 17.-24.sæti. Sigur íslensku stúlknanna gegn Ítölum var sérstaklega glæsilegur þar sem Ragna Ingólfsdóttir lagði Agnese Allegrini að velli en Agnese er þrettán sætum ofar en Ragna á heimslistanum. Þá var frækinn sigur karlalandsliðsins á Tyrkjum frábær. Barist var til síðasta blóðdropa í æsispennandi leik. Einnig verður árangur Magnúsar Inga Helgasonar og Helga Jóhannessonar gegn sterkasta tvíliðaleikspari rússa að teljast einn af hápunktum mótsins hjá Íslendingum. Rússarnir eru númer 25 á heimslistanum en samt voru íslensku strákarnir aðeins hársbreidd frá því að vinna þá.

Smellið hér til að skoða úrslit allra leikja á Evrópukeppni landsliða 2008.
Skrifađ 18. febrúar, 2008
ALS