Ţjóđverjar geysisterkir

Íslenska kvennalandsliðið í badminton var rétt í þessu að ljúka keppni á Evrópukeppni landsliða sem fram fer í Almere í Hollandi um þessar mundir. Íslenska liðið beið lægri hlut 5-0 fyrir geysisterku liði Þjóðverja í síðasta leik riðlakeppninnar og hreinum úrslitaleik um sæti í átta liða útsláttarkeppni mótsins.

Fyrsta einliðaleik lék Ragna Ingólfsdóttir gegn Xu Huaiwen. Xu Huaiwen er ein sterkasta badmintonkona heims og er númer sjö á heimslistanum og í öðru sæti á lista yfir sterkustu einliðaleikskonur í Evrópu. Ragna átti aldrei möguleika gegn feikilega sterkri Xu og beið lægri hlut 21-9 og 21-9.

Í öðrum einliðaleik lék Tinna Helgadóttir gegn Janet Koehler. Janet er númer 118 á heimslistanum og hefur náð góðum árangri í alþjóðlegum mótum að undanförnu. Hún varð meðal annars í öðru sæti á Opna sænska mótinu sem haldið var í Stokkhólmi í janúar. Árið 2005 var Janet Evrópumeistari unglinga. Tinna náði að spila ágætis leik gegn Janet og var fyrri hluti fyrstu lotu mjög jafn. Tinna komst yfir 13-11 en tapaði síðan 21-17. Í annari lotu leiddi Tinna til að byrja með en náði ekki að halda fengnum hlut og tapaði 21-16.

Sara Jónsdóttir lék síðasta einliðaleik íslensku stúlknanna gegn Karin Schnaase. Karin hefur ekki tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum undanfarin misseri og er því aðeins númer 231 á heimslistanum. Hún er þó reynslumikil keppniskona og hefur náð ágætis árangri síðastliðin tvö ár. Sara er ekki á heimslistanum enda er hún að koma til baka í landsliðsverkefni eftir nokkuð langt hlé. Fyrsta lotan var mjög góð hjá Söru sem leiddi nánast allan tíman og sigraði 21-19. Í annari lotu var sú þýska sterkari og sigraði nokkuð örugglega 21-11. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Í oddalotunni voru þær Sara og Karin jafnar allt upp í 12 stig en þá stakk sú þýska af og sigraði 21-12. Þrátt fyrir tapið má segja að árangur Söru sé mjög góður og frábært hjá okkar konu að ná svo góðum leik gegn þessari sterku stúlku.

Í fyrri tvíliðaleiknum léku þær Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir gegn Juliane Schenk og Kathrin Piotrowski. Juliane er númer 15 á heimslistanum ásamt Nicole Grether og því var ljóst að hér yrði um mjög erfiða viðureign að ræða fyrir okkar stúlkur. Raunin varð einnig sú og þær þýsku sigruðu Rögnu og Katrínu mjög örugglega 21-3 og 21-8.

Birgit Overzier og Michaela Peiffer léku gegn Söru Jónsdóttur og Tinnu Helgadóttur í öðrum tvíliðaleiknum. Birgitt er númer 30 á heimslistanum ásamt Carina Mette og hér enn og aftur ljóst að íslensku stúlkurnar ættu undir högg að sækja. Birgit og Michaela voru með forystu allan tíman og sigruðu 21-7 og 21-11.

Íslensku stúlkurnar enduðu því í öðru sæti í sínum riðli og þar með í 8.-14.sæti á mótinu. Vissulega góður árangur hjá stúlkunum sem unnu frækilegan sigur á Ítölum á þriðjudag og völtuðu hreinlega yfir Wales á miðvikudag.

Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Tinna Helgadóttir  Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Katrín Atladóttir  Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Ragna Ingólfsdóttir  Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Sara Jónsdóttir

Íslenska kvennalandsliðið í badminton. Frá vinstri Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir, Ragna Ingólfsdóttir og Sara Jónsdóttir.

Það verður spennandi að sjá hvort að þýsku stúlkurnar nái að standa undir röðun sinni á mótinu og sigra alla andstæðinga sína í útsláttarkeppninni. Danir eiga án efa eftir að veita þeim harða keppni og Hollendingar eða Englendingar einnig ef þeim tekst að sigra þær dönsku.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópukeppni landsliða í Hollandi.

Skrifađ 14. febrúar, 2008
ALS