Öruggur sigur gegn Wales

Íslenska kvennalandsliðið í badminton var rétt í þessu að sigra Wales á Evrópumóti landsliða sem fram fer í Almere í Hollandi um þessar mundir. Sigur íslensku stúlknanna var mjög öruggur og endaði leikurinn 5-0.

Árni Þór Hallgrímsson landsliðsþjálfari gaf Rögnu Ingólfsdóttur frí í einliðaleiknum í dag enda búið að vera mikið álag á henni að undanförnu. Fyrsta einliðaleik lék því Tinna Helgadóttir fyrir Íslands hönd. Caroline Harvey átti ekki mikla í möguleika í leiknum gegn Tinnu sem sigraði nokkuð örugglega 21-17 og 21-12.

Annan einliðaleik lék Katrín Atladóttir gegn Vikki Jones. Katrín var líkt og Tinna mjög örugg í sínu spili og sigraði Vikki örugglega 21-13 og 21-16.

Sara Jónsdóttir lék síðan síðasta einliðaleik íslensku stúlknanna gegn Rachel Thomas. Sara spilaði mjög vel og tryggði íslenska liðinu sigur í landsleiknum með því að leggja Rachel örugglega að velli 21-11 og 21-9.

Fyrri tvíliðaleik kvenna léku þær Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir gegn Bethan Higginson og Kelly Blake. Leikurinn var jafn til að byrja með en síðan tóku þær íslensku forystu og héldu henni allt til loka. Leikurinn endaði með sigri Rögnu og Katrínar 21-14 og 21-9.

Í síðari tvíliðaleiknum léku þær Tinna Helgadóttir og Sara Jónsdóttir gegn Caroline Harvey og Vikki Jones. Þær Caroline og Vikki áttu ekki möguleika gegn Tinnu og Söru sem sigruðu í tveimur lotum 21-13 og 21-14.

Íslenska kvennalandsliðið mætir því þýska á morgun fimmtudag í hreinum úrslitaleik um sigur í riðlinum og sæti í átta liða útsláttarkeppni mótsins. Leikurinn hefst kl. 13.00 að íslenskum tíma.

Smellið hér til að skoða niðurröðun, tímasetningar og úrslit Evrópumóts landsliða.

Skrifađ 13. febrúar, 2008
ALS