Spánverjar sterkir

Íslenska karlalandsliðið í badminton mæti Spánverjum í dag á Evrópukeppni landsliða sem fram fer í Almere í Hollandi. Eins og við var að búast var lið Spánverja mjög sterkt og sigruðu þeir íslenska liðið nokkuð örugglega 4-1.

Fyrsta einliðaleik lék Magnús Ingi Helgason gegn Pablo Abian sem er númer 48 á heimslistanum. Pablo sigraði í tveimur lotum 21-14 og 21-13.

Annan einliðaleik lék Tryggvi Nielsen gegn Carlos Longo. Carlos er einnig feikna sterkur leikmaður líkt og Pablo sem Magnús Ingi keppti við og er númer 75 á heimslistanum. Tryggvi átti nokkuð góðan leik en beið þó lægri hlut 21-15 og 21-17.

Þriðja og síðast einliðaleikinn lék Helgi Jóhannesson fyrir Íslands hönd gegn Nicolas Escartin. Fyrsta lotan var mjög jöfn og spennandi og náði Helgi að sigra naumlega 23-21. Í annari lotunni var sá spænski með mikla yfirburði og sigraði 21-8. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit. Í oddalotunni var Helgi með yfirhöndina nánast allan tímann en beið þó lægri hluta á lokastigum leiksins 21-19.

Þar með var ljóst að Spánverjar væru búnir að sigra í landsleiknum þrátt fyrir að tveir tvíliðaleikir væru eftir. Þó að úrslit séu ljós í riðlakeppni Evrópumótsins eru allir leikir spilaðir ef ske kynni að einhver lið yrðu með jafn marga vinninga.

Fyrsta tvíliðaleik léku þeir Magnús Ingi Helgason og Helgi Jóhannesson gegn Jose Antonio og Crespo Pablo Abian. Helgi og Magnús Ingi spiluðu ágætlega en náðu þó ekki að sigra. Leikurinn fór 21-14 og 21-15. Í öðrum tvíliðaleiknum léku þeir Tryggvi Nielsen og Atli Jóhannesson gegn Carlos Longo og Nicolas Escartin. Tryggvi og Atli spiluðu frábærlega og tryggðu íslenska karlalandsliðinu fyrsta sigur sinn á mótinu. Þeir unnu í tveimur lotum 21-18 og 22-20.

Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Magnús Ingi Helgason  Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Atli Jóhannesson.  Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Helgi Jóhannesson.

Íslenska karlalandsliðið í badminton. Frá vinstri Magnús Ingi Helgason, Atli Jóhannesson og Helgi Jóhannesson. Mynd vantar af Tryggva Nielsen. 

Næsti leikur íslenska karlalandsliðsins fer fram á morgun fimmtudag kl. 9.00 að íslenskum tíma. Þá mun liðið leika gegn Tyrkjum. Tyrkir hafa líkt og Íslendingar tapað báðum sínum leikjum í riðlinum og því má segja að leikurinn verði úrslitaleikur um þriðja sætið í riðlinum.

Íslenska kvenna landsliðið var rétt í þessu að hefja sinn annan leik á Evrópumótinu og leika nú gegn Wales. Reikna má með að leiknum ljúki um kl. 20 í kvöld.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópumóti landsliða í Hollandi.

Skrifađ 13. febrúar, 2008
ALS