Evrˇpukeppni landsli­a - leikir dagsins

Evrópukeppni karla- og kvennalandsliða heldur áfram í Almere í Hollandi í dag en mótið hófst í gær. Klukkan 13.00 að íslenskum tíma mætir íslenska karlalandsliðið Spánverjum en kvennalandsliðið mætir Wales klukkan 17.00. Smellið hér til að fylgjast með leikjum dagsins. Einnig er hægt að smella á "live scoring" efst í hægra horni síðunnar til að fylgjast beint með gangi mála í hverjum leik fyrir sig.

Það sem stendur uppi úr keppni gærdagsins er án efa góður sigur kvennaliðsins á Ítölum 3-2 og frábær tvíliðaleikur Magnúsar Inga Helgasonar og Helga Jóhannessonar gegn feiknar sterku liði Rússa.

Sigurinn gegn Ítölum var bæði mikilvægur fyrir landsliðið en ekki síst fyrir Rögnu sem sigraði Agnese Allegrini í einliðaleik og tryggði sér þarmeð mikilvæg stig í baráttunni við að komast á Ólympíuleikana. Agnese er ellefu sætum fyrir ofan Rögnu á heimslistanum.

Tvíliðaleikur þeirra Magnúsar Inga og Helga gegn Alexsandr Nikolaenko og Vitalij Durkin var hreint út sagt frábær en þeir rússnesku eru númer 25 á heimslistanum. Fyrirfram hefði mátt ætla að Rússarnir myndu sigra þá íslensku örugglega en annað kom í ljós. Magnús Ingi og Helgi voru mjög nálægt því að sigra fyrstu lotuna en biðu naumlega lægri hlut 22-24. Þeim tókst síðan að vinna næstu lotu 21-16 en urðu að játa sig sigraða í oddalotunni 16-21. Það að þeir Magnús Ingi og Helgi nái svo jöfnum leik gegn svo sterku pari sýnir hversu góðir badmintonmenn þeir eru og að þeir eiga svo sannarlega heima í alþjóðlegri keppni.

Það er ljóst að leikurinn gegn Spánverjum í dag verður mjög erfiður fyrir íslenska karlalandsliðið. Spánverjar eiga mjög sterka einliðaleiks stráka en þeirra sterkasti maður, Pablo Abian, er númer 44 á heimslistanum. Þeir eiga tvo aðra leikmenn á topp 100, einn númer 73 og annan númer 91. Miðað við stöðu á heimslista verður því að teljast ólíklegt að íslenska karla landsliðinu takist að sigra í einliðaleikjunum gegn þeim. Tvíliðaleikurinn gæti hinsvegar verið opnari en þar hafa Spánverjarnir lítið verið að taka þátt í alþjóðlegum mótum líkt og Íslendingarnir. Þar sem að leiknir eru þrír einliðaleikir en aðeins tveir tvíliðaleikir verða Spánverjar að teljast sigurstranglegri í landsleiknum á pappírunum. Ísland og Spánn hafa tvisvar áður mæst í keppni karla landsliða en í bæði skiptin hafði íslenska liðið sigur, 5-0 árið 1994 og 3-2 árið 2000. Sagan er því góð fyrir okkar menn. Spánverjar mættu Tyrkjum í gær á Evrópumótinu og sigruðu þá 5-0 líkt en Rússar sigruðu íslenska liðið með sömu tölum.

Leikur íslenska kvennalandsliðsins í dag gegn Wales verður að teljast nokkuð opinn. Leikmenn Wales hafa ekki verið mikið á faraldsfæti undanfarið ár og eru því ekki margir þeirra inná heimslistanum. Þeir sem eru á listanum hafa farið á mjög fá mót og því segir staða þeirra þar lítið um getu þeirra. Það sama má þó segja um íslensku leikmennina sem lítið hafa verið á faraldsfæti fyrir utan Rögnu Ingólfsdóttur. Áætla má því að leikurinn gegn Wales geti orðið mjög jafn og ómögulegt að spá fyrir um úrslit hans. Þess má þó geta að síðast þegar þessi kvennalandslið mættust þá sigraði Ísland 3-2. Sá leikur fór fram á Heimsmeistarakeppni landsliða árið 1988 og er það eina skiptið svo vitað sé að þessi tvö lið hafi mæst áður.

Smellið hér til að fylgjast með gangi mála á Evrópukeppni landsliða í Hollandi.

 

Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Magnús Ingi Helgason, Tinna Helgadóttir, Atli Jóhannesson, Ragna Ingólfsdóttir, Helgi Jóhannesson, Katrín Atladóttir, Árni Þór Hallgrímsson landsliðsþjálfari og Sara Jónsdóttir. Á myndina vantar Tryggva Nielsen sem einnig var í liðinu.

 

Íslenska landsliðið í badminton. Frá vinstri Magnús Ingi Helgason, Tinna Helgadóttir, Atli Jóhannesson, Ragna Ingólfsdóttir, Helgi Jóhannesson, Katrín Atladóttir, Árni Þór Hallgrímsson og Sara Jónsdóttir.

 

Skrifa­ 13. febr˙ar, 2008
ALS