Góð barátta gegn Rússum

Íslenska karlalandsliðið í badminton tapaði í kvöld fyrir Rússum á Evrópumóti landsliða sem fram fer þessa dagana í Almere í Hollandi. Rússar sigruðu íslenska liðið 5-0 en íslensku strákarnir áttu engu að síður mjög góða kafla í leiknum. Rússar eru með firna sterkt lið og hafa röðun í riðli íslenska liðsins og teljast því líklegir til að sigra og komast áfram í útsláttarkeppni mótsins.

Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Helgi Jóhannesson. Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Magnús Ingi Helgason Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Atli Jóhannesson.

Íslenska karlalandsliðið í badminton. Helgi Jóhannesson, Magnús Ingi Helgason og Atli Jóhannesson. Mynd af Tryggva Nielsen vantar.

Fyrsta einliðaleik lék Magnús Ingi Helgason gegn Stanislav Pukhov en Stanislav er númer 69 á heimslistanum. Stanislav sigraði nokkuð örugglega viðureignina gegn Magnúsi Inga 21-14 og 21-13.

Annan einliðaleik lék Atli Jóhannesson gegn Ivan Sozonov. Atli átti aldrei möguleika gegn Ivan og beið lægri hlut 21-10 og 21-6.

Í þriðja einliðaleik lék Tryggvi Nielsen gegn Alexsandr Nikolaenko. Fyrstu lotu sigraði Alexsandr 21-13 en þá næstu sigraði Tryggvi 21-14. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit en þar sigraði Alexsandr 21-11.

Staðan eftir einliðaleikina var því orðin 3-0 og ljóst að Rússar væru búnir að tryggja sér sigur í leiknum. Íslensku strákarnir veittu þeim rússnesku hinsvegar harðari keppni í tvíliðaleiknum en þar munaði minnstu að þeir Magnús Ingi og Helgi Jóhannesson sigruðu Alexsandr Nikolaenko og Vitalij Durkin. Í fyrstu lotu sigruðu þeir rússnesku mjög naumlega 24-22 en í þeirri næstu voru það Magnús Ingi og Helgi sem sigruðu 21-16. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit en þar sigruðu Rússarnir í jöfnum leik 21-16. Árangur þeirra Magnúsar Inga og Helga er hreint út sagt frábær því þeir rússnesku eru númer 25 á heimslistanum.

Þeir Tryggvi Nielsen og Atli Jóhannesson léku síðari tvíliðaleikinn gegn Rússum. Okkar menn byrjuðu frekar illa og lentu strax undir 2-9 en náðu sér síðan betur á strik og biðu lægri hlut 21-17 og 21-15.
Næsti leikur íslenska karlalandsliðsins er á morgun miðvikudag gegn Spánverjum og hefst hann klukkan 13.00 að íslenskum tíma. Búast má við mjög erfiðum leik fyrir íslensku strákana en þær spænsku sigruðu Tyrki í dag 5-0.

Smellið hér til að skoða niðurröðun og tímasetningar mótsins.

Skrifað 12. febrúar, 2008
ALS