Ítalir lagðir

Íslenska kvennalandsliðið í badminton sigraði í morgun Ítali á Evrópukeppni landsliða sem fram fer í Almere í Hollandi þessa dagana. Fyrirfram var talið að leikurinn gæti orðið mjög jafn sem hann og varð því íslenska liðið sigraði 3-2.

Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Tinna Helgadóttir Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Sara Jónsdóttir Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Katrín Atladóttir Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Ragna Ingólfsdóttir

Íslenska kvennalandsliðið í badminton. Frá vinstri Tinna Helgadóttir, Sara Jónsdóttir, Katrín Atladóttir og Ragna Ingólfsdóttir.

Í fyrsta einliðaleik kvenna lék Ragna Ingólfsdóttir gegn Agnese Allegrini. Ragna byrjaði leikinn mun betur og var með yfirhöndina nánast allan tíman í fyrri lotunni. Það var síðan undir lok lotunnar sem Agnese náði að klóra í bakkan og var næstum búin að stela sigrinum með því að komast yfir 20-19. Ragna náði sér hinsvegar á strik aftur og sigraði 23-21. Í annari lotunni var Agnese sterkari og var með yfirhöndina allan tíman og sigraði 21-17. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja á um úrslit og þar sigraði Ragna nokkuð örugglega 21-14. Sigur Rögnu gegn Agnese var bæði mikivægur fyrir íslenska landsliðið en einnig Rögnu sjálfa í baráttu sinni við að komast hærra á heimslistanum. Agnese er um þessar mundir ellefu sætum fyrir ofan Rögnu á heimslistanum og gefur það fleiri stig að vinna hærra raðaðri leikmenn í liðakeppnum heldur en lægra.

Í öðrum einliðaleik náði Tinna Helgadóttir sér ekki á strik gegn sterkri Ding Hui og beið lægri hlut 21-14 og 21-8. Sara Jónsdóttir lék þriðja og síðasta einliðaleikinn gegn Ira Tomio. Sara sigraði örugglega 21-11 og 21-10.

Þegar hér var komið við sögu var því staðan orðin 2-1 fyrir Ísland og ljóst að liðið þyrfti aðeins að sigra í öðrum af þeim tveimur leikjum sem eftir væru til að vinna ítalska liðið. Þær Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir tóku svo sannarlega mikla pressu af vinkonum sínum þeim Söru og Tinnu því þær sigruðu örugglega sinn leik 21-13 og 21-10 gegn Ira Tomio og Claudia Gruber.

Þegar tvíliðaleikur Söru og Tinnu gegn Agnese Allegrini og Ding Hui hófst var því ljóst að sigur Íslands væri í höfn, spurningin var bara hvort um 3-2 eða 4-1 sigur yrði að ræða. Þær Sara og Tinna börðust svo sannarlega með klóm og kjafti en náðu þó ekki að sigra þrátt fyrir mikla baráttu. Fyrstu lotu sigruðu þær ítölsku í mjög jöfnu spili 24-22 en þá næstu nokkuð örugglega 21-15.

Frábær árangur hjá íslenska kvennalandsliðinu í badminton sem næst mætir landsliði Wales á mótinu. Leikurinn fer fram á morgun miðvikudag og hefst kl. 17 að íslenskum tíma.

Íslenska karla landsliðið hefur keppni á Evópumóti landsliða kl. 17 í dag þegar þeir mæta Rússum. Hægt er að fylgjast með gangi mála á mótinu með því að smella hér. Ef smellt er á „live scores" efst í hægra horni síðunnar má fylgjast með því sem fram fer beint á netinu.

Skrifað 12. febrúar, 2008
ALS