Íslenskir keppendur á Alþjóðlega króatíska mótinu

Stór hluti Afrekshóps Badmintonsambands Íslands fór til Króatíu um páskana og tók þátt í Alþjóðlega króatíska mótinu. Auk þeirra Eiðs Ísaks Broddasonar, Davíðs Bjarna Björnssonar, Kristófers Darra Finnssonar, Daníels Jóhannessonar, Örnu Karenar Jóhannsdóttur, Margrétar Jóhannsdóttur, Þórunnar Eylands og Sigríðar Árnadóttur fóru Andrea Nilsdóttir og Sigurður Sverrir Gunnarsson í þessa keppnisferð.

Eiður Ísak, Kristófer, Davíð Bjarni og Sigurður Sverrir töpuðu fyrsta einliðaleik sínum í forkeppninni. Daníel vann tvo einliðaleiki en tapaði síðan fyrir Filip Budzel og komst ekki upp úr forkeppninni. Stelpurnar fóru allar í aðalkeppnina en töpuðu þar fyrsta leik, allar nema Margrét. Hún vann Frida Lindstrom frá Svíþjóð eftir oddalotu 22-20, 17-21, 21-16. Margrét tapaði svo í öðrum leik fyrir Maja Pavlinic frá Króatíu 21-13, 21-10.

Eiður og Sigurður spiluðu í tvíliðaleik gegn dönskum piltum og töpuðu 21-17, 21-17. Davíð Bjarni og Kristófer töpuðu líka tvíliðaleik sínum en þeir mættu heimamönnum og töpuðu 21-9, 21-12.

Arna Karen og Þórunn töpuðu fyrir dönskum stúlkum í tvíliðaleik en Margrét og Sigríður unnu Antonia Meinke frá Austurríki og Ana Marija Setina frá Slóveníu 16-21, 21-19, 21-19. Þær mættu í annarri umferð Eistum sem var raðað númer eitt inn í greinina, Kristin Kuuba og Helina Rüütel. Þær töpuðu fyrir þeim 14-21, 13-21.

Íslensku keppendurnir tóku einnig þátt í tvenndarleik. Þau duttu öll út eftir fyrsta leik í þeirri grein.

Smellið hér til að sjá úrslit á Alþjóðlega króatíska mótinu.

Skrifað 16. apríl, 2017
mg