Evrˇpukeppni landsli­a - leikir dagsins

Evrópukeppni karla- og kvennalandsliða hefst í Almere í Hollandi í dag. Íslenska kvennalandsliðið hefur keppni kl. 9.00 að íslenskum tíma þar sem leikið verður gegn Ítalíu. Íslenska karlalandsliðið mætir síðan Rússum kl. 17.00. Niðurröðun, tímasetningar, upplýsingar um leikmenn liða o.fl. má nálgast með því að smella hér. Hægt er að fylgjast með gangi mála beint á netinu með því að smella á "live scores" hnappinn efst í hægra horni fyrrgreindrar síðu.

Leikur íslenska kvennalandsliðsins gegn Ítalíu verður að teljast mjög opinn. Ítalir eru badmintonþjóð á uppleið sem alltaf eru að koma fram með betri og betri leikmenn. Þeir eiga eina mjög sterka einliðaleiks konu um þessar mundir, Agnese Allegrini, sem er númer 43 á heimslistanum eða 11 sætum ofar en Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir. Þær Agnese og Ragna hafa aldrei mæst í alþjóðlegu móti svo vitað sé til en á pappírunum má þó áætla að sú ítalska sé sterkari. Við skulum þó spyrja að leiks lokum því keppniskonunni Rögnu hefur oftar en ekki tekist að vinna leikmenn sem eru ofar en hún á heimslistanum. Aðrir leikmenn Ítalíu eru óskrifað blað og erfitt að meta getu þeirra. Leikurinn gegn Ítölum verður án efa spennandi og hugsanlegt að leikur Rögnu og Agnese muni ráða úrslitum hans á endanum. Miðað við gang sögunnar verður íslenska liðið í heild sinni þó að teljast sigurstranglegra því íslenska landsliðið hefur aldrei tapað fyrir Ítölum en liðin hafa mæst sjö sinnum í landsleik.

 

Evrópukeppni landsliða - Undankeppni Thomas og Uber Cup. Magnús Ingi Helgason, Tinna Helgadóttir, Atli Jóhannesson, Ragna Ingólfsdóttir, Helgi Jóhannesson, Katrín Atladóttir, Árni Þór Hallgrímsson landsliðsþjálfari og Sara Jónsdóttir. Á myndina vantar Tryggva Nielsen sem einnig var í liðinu.

 

Í leik íslenska karlalandsliðsins gegn Rússum verða Rússarnir að teljast sigurstranglegri enda eru þeir með röðun í riðlinum. Sterkasti einliðaleiksmaður Rússa, Stanislav Pukhov, er númer 51 á heimslistanum. Þrír aðrir leikmenn þeirra eru á topp 200 á heimslistanum. Rússar eiga mjög sterka tvíliðaleiks menn. Þeirra sterkasta par er númer 21 á heimslistanum og það næst sterkasta númer 91. Íslensku landsliðsmennirnir eru mjög neðarlega á heimslistanum enda hafa þeir haft lítið tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegum mótum að undanförnu.

Skrifa­ 12. febr˙ar, 2008
ALS