Ragna hefur lokiđ keppni í Íran

Ragna Ingólfsdóttir beið lægri hlut í átta liða úrslitum á alþjóðlega badmintonmótinu Iran Fajr 2008 sem fram fer í Teheran í Íran um þessar mundir. Hún lék gegn Morshahliza Baharum frá Malasíu í löngum og jöfnum leik. Fyrstu lotuna vann Morshaliza 21-18 en þá næstu sigraði Ragna 21-10. Það þurfti því að leika oddalotu til að knýja fram úrslit og þar sigraði sú malasíska 21-19. Ragna var mjög svekt að ná ekki að klára leikinn eftir að hafa náð sér svo vel á strik í annari lotunni.

Morshahliza Baharum ku vera þriðja besta einliðaleikskona Malasíu en hún er að koma til baka eftir hlé vegna meiðsla og er því ekki ofarlega á heimslistanum. Í undanúrslitum tóks ítölsku stúlkunni Agnese Allegrini þó að sigra Morshahliza 21-18 og 22-20 í mjög jöfnum leik. Á morgun verður leikið til úrslita á mótinu en þar mætast þær Agnese Allegrini og portúgalska stúlkan Thelma Santos.

Ragna heldur heim til Íslands annað kvöld og kemur til landsins seinnipartinn á miðvikudag.

Skrifađ 4. febrúar, 2008
ALS