Ragna komin í 8-liđa úrslit í Íran

Íslandsmeistarinn Ragna Ingólfsdóttir er nú stödd í höfuðborg Írans, Teheran, þar sem hún tekur þátt í alþjóðlegu badmintonmóti. Aðstæður í Teheran eru mjög frumstæðar og erfiðlega hefur gengið að ná símasambandi við Rögnu. Ekkert gsm samband næst þar sem hún er stödd og sjaldan hægt að ná sambandi við hótelið þar sem hún dvelur. Mótshaldarar halda heldur ekki úti heimasíðu og því er erfitt að nálgast fréttir af stöðu mála.

Þær fréttir voru hinsvegar að berast rétt í þessu að Ragna sigraði fyrstu tvo leikina sína og er komin í átta liða úrslit. Átta liða úrslitin verða leikin á morgun og þá mun Ragna mæta Morshahliza Baharum frá Malasíu. Morshahlizia er mjög sterkur leikmaður og var Ragna í raun mjög óheppin að þurfa að mæta henni í átta liða úrslitum því að í öllum hinum átta liða úrslitaleikjunum mætast evrópskar stúlkur sem eru á mjög svipuðum slóðum og Ragna á heimslistanum.

Fréttir af gengi Rögnu verða settar hér á síðuna um leið og þær berast frá Teheran á morgun.

Skrifađ 3. febrúar, 2008
ALS