Gengi íslenska hópsins í Litháen

Stærstur hluti Afrekshóps Badmintonsambandsins tók þátt í Alþjóðlega litháenska mótinu nú um helgina. Mótið hófst á fimmtudaginn og lauk í gær, sunnudag.

Mótið hófst á fimmtudaginn með forkeppni í einliðaleik karla en í henni tapaði Eiður Ísak Broddason fyrir Mark Sames frá Litháen. Daníel Jóhannesson tapaði fyrir Louis Ducrot frá Frakklandi.

Í einliðaleik kvenna fékk Sigríður Árnadóttir gefinn fyrsta leik í forkeppninni og hún sat því hjá í fyrstu umferð. Hún keppti svo í annarri umferð forkeppninnar gegn Juliette Moinard og tapaði fyrir henni.

Davíð Bjarni Björnsson og Kristófer Darri Finnson kepptu í forkeppni tvíliðaleiks karla og töpuðu fyrsta leik gegn Andrei Ivanov og Anton Nazarenko frá Rússlandi.

Á föstudaginn hófst svo aðalkeppnin. Þar töpuðu Daníel Jóhannesson og Rakel Jóhannesdóttir fyrir Dmitrii Riabov og Maria Shegurova frá Rússlandi. Kristófer Darri og Sigríður léku gegn pari frá heimaþjóðinni, Paulius Bertasius og Gabriele Paskeviciute og unnu 21-11 og 21-17. Í annarri umferð töpuðu þau svo fyrir Fabien Delrue og Juliette Moinard frá Frakklandi, eftir oddalotu. Davíð Bjarni og Margrét Jóhannsdóttir unnu Guntis Lavrinovics og Jekaterina Romanova frá Lettlandi 21-13, 18-21 og 21-15.

Davíð Bjarni Björnsson fór beint í aðalkeppnina í einliðaleik og mætti í fyrsta leik Adam Mandrek frá Tékkandi en honum var raðað númer þrjú inni í greinina og Davíð Bjarni tapaði fyrir honum.

Margrét Jóhannsdóttir fór líka beint inn í aðalkeppnina og lenti í fyrsta leik gegn dönsku stúlkunni Irina Amalie Andersen sem var raðað númer sex inn í greinina og lauk í lægra haldi fyrir henni.

Í tvíliðaleik karla mættu Eiður Ísak og Daníel Karolis Eimutaitis og Edgaras Slusnys frá Litháen í fyrst umferð og unnu þá eftir oddalotu 21-14, 18-21 og 21-15. Þeir unnu líka leik sinn í annarri umferð gegn Sturla Flaten Jorgensen og Mattias Xu frá Noregi 21-14 og 22-20.

Margrét og Rakel kepptu í tvíliðaleik kvenna við Anastasiya Cherniavskaya og Alesia Zaitsava frá Hvíta-Rússlandi en þeim var raðað númer þrjú inn í greinina. Margrét og Rakel töpuðu í oddalotu.

Á laugardeginum spiluðu Eiður Ísak og Daníel í átta liða úrslitum við Martynenko Mykola og Don Sergey frá Úkraínu og töpuðu 12-21 og 11-21.

Davíð Bjarni og Margrét töpuðu einnig í átta liða úrslitum fyrir Vladzislav Kushnir og Krestina Silich frá Hvíta- Rússlandi eftir oddalotu.

Smellið hér til að sjá fleiri útslit leikja í Alþjóðlega litháenska mótinu.

Skrifað 13. júní, 2016
mg